Gjáin, Háifoss og Hjálparfoss friðlýst

Gjáin í Þjórsárdal.
Gjáin í Þjórsárdal. mbl.is/Sigurður Bogi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag friðlýsingu hluta Þjórsárdals sem landslagsverndarsvæði.

Innan svæðisins eru þrír þekktir staðir sem samhliða eru friðlýstir sem náttúruvætti, þ.e. Gjáin, Háifoss og Granni og Hjálparfoss. Þetta er fyrsta friðlýsingin í friðlýsingarflokki landslagsverndarsvæða hérlendis, að því er segir í tilkynningu.

„Gjáin hefur verið vinsæll ferðamannastaður og er helsta aðdráttaraflið lítt röskuð náttúra og friðsæld. Háifoss, Granni og Stöng eru einnig fjölsóttir ferðamannastaðir í Þjórsárdal. Friðlýsingunni er ætlað að varðveita sérkenni og einkenni landslagsins, fagurfræðilegt og menningarlegt gildi þess. Í friðlýsingarskilmálum er tekið fram að þar sem hefðbundnar nytjar eru forsenda fyrir því að varðveita einkenni landslagsins verður miðað að því að tryggja að þeim verði haldið við,“ segir í tilkynningunni.

Auk þess að vera fyrsta landslagsverndarsvæðið á Íslandi er friðlýsingin sú fyrsta sem fellur undir viðkvæm svæði undir álagi ferðamanna í friðlýsingarátaki ráðherra.

„Gjáin og fossarnir öðlast hér verðugan sess á meðal friðlýstra svæða á Íslandi. Þetta er mjög gott dæmi um hvernig megi beita friðlýsingum sem aðferð við að stýra álagi ferðamanna á náttúruperlur okkar, m.a. með auknum innviðum og landvörslu. Við settum aukið fjármagn í slík verkefni strax í fyrra meðan á undirbúningi friðlýsingar stóð sem þegar hefur skilað árangri í vernd svæðisins og stýringu ferðamanna,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, í tilkynningunni.

Friðlýsingin var unnin í samstarfi við Skeiða- og Gnúpverjahrepp og forsætisráðuneytið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert