Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segist hafa heyrt orðróm um að knattspyrnusambandið horfi til annarra sveitarfélaga vegna byggingar nýs þjóðarleikvangs en ekkert sé hæft í honum.
„Það hefur ekki komið til þess að leita til annarra sveitarfélaga. Fyrsti kostur er Reykjavík og Laugardalsvöllur. Það er álitið af okkur raunhæfasti og æskilegasti kosturinn, bæði fyrir land og þjóð og Reykjavíkurborg, án þess að neitt sé hægt að útiloka í þeim efnum,“ segir Guðni.
Hann bendir á að undirbúningsfélag sé að störfum varðandi útboð um þarfagreiningu og áætlanagerð. Sú vinna verður í gangi á næstu mánuðum í samstarfi við Reykjavíkurborg og ríkið.
Formaðurinn segir algjörlega vera kominn tíma á nýjan þjóðarleikvang en fyrir þremur árum sagðist hann vonast til þess að slíkur leikvangur myndi opna á fyrri hluta þessa árs.
„Maður er bjartsýnismaður en stundum kemur það í bakið á manni,“ segir hann og kveðst ekki trúa öðru en að ákvörðun varðandi nýjan leikvang muni liggja fyrir á þessu ári. „Málið verður ekki þarfagreint eða rýnt mikið meira en við erum að gera.“
Áður en blaðamaður ræddi við Guðna hafði hann samband við Gunnar Einarsson, bæjarstjóra Garðabæjar, vegna orðróms um að bærinn sé einn þeirra sem KSÍ hefði rætt við.
Gunnar sagði engan hafa talað við Garðabæ en bætti við að hann hefði ekkert á móti þjóðarleikvangi þar í bæ. Plássið væri til staðar. Samningar yrðu samt að nást við ríkið um reksturinn, því Garðabær telji ekki eðlilegt að sveitarfélagið sjái um rekstur eða byggingu leikvangs sem sé ætlaður allri þjóðinni. „Við erum alltaf til umræðu, en undir þessum formerkjum.“