Leigusali vill þrefalda leiguverðið

Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradísar, við bíóhúsið.
Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradísar, við bíóhúsið. mbl.is/Árni Sæberg

Leigusamningur Bíós Paradísar vegna húsnæðis kvikmyndahússins að Hverfisgötu 54 rennur út 30. júní næstkomandi og hefur leigusalinn farið fram á þre- til fjórfalt hærra leiguverð fyrir húsnæðið.

Þetta setur algert strik í rekstur kvikmyndahússins, að sögn Hrannar Sveinsdóttur, framkvæmdastjóra Bíós Paradísar.

Eigendur húsnæðisins eru aðstandendur félagsins Karls mikla ehf., en að sögn Hrannar hefur leiguverðið verið mjög viðráðanlegt undanfarin ár, raunar langt undir markaðsverði. Nú vilji eigendurnir fá eðlilegt markaðsverð, sem sé þrefalt til fjórfalt hærra. Þetta hafi legið fyrir frá því Karl mikli keypti húsnæðið. 

Að óbreyttu lýkur starfsemi kvikmyndahússins að loknum uppsagnarfresti starfsfólksins 1. maí. Starfsfólki í afgreiðslu hefur þegar verið sagt upp, en öðru starfsfólki verður sagt upp í lok mars.

Hrönn segir að skoðað hafi verið að færa starfsemi kvikmyndahússins í annað húsnæði. Það fengist hins vegar hvorki styrkur fyrir því né að vera áfram í núverandi húsnæði. Bæði Reykjavíkurborg og ríkið hafi lengi vitað af stöðunni. Allt sé þó hægt ef vilji sé fyrir hendi.

Reksturinn í blóma

„Það er allt hægt, ef viljinn er fyrir hendi. Við þurfum bara að spyrja okkur núna, þurfum við hús eins og Bíó Paradís og viljum við greiða eðlilega fyrir það?“ segir Hrönn. 

„Innan við 20% af tekjum okkar hafa komið úr opinberum sjóðum. Við höfum alltaf rekið okkur meira en 80% á sjálfsaflafé. Ég veit ekki um neitt annað menningarhús sem gerir slíkt. Það er óþekkt en það hefur tekist og okkur hefur meira að segja gengið mjög vel síðustu þrjú árin. Við höfum aldrei tekið við jafn mörgum gestum og aðsóknin fer sífellt vaxandi.“

Bíó Paradís er samstarfsvettvangur flestra þeirra sem koma að kvikmyndamálum í landinu, eins og segir á vef kvikmyndahússins, og nefndir dreifingaraðilar kvikmynda í landinu, Stockfish kvikmyndahátíð í Reykjavík, Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík, Reykjavik Shorts & Docs, Stuttmyndadagar í Reykjavík; Kvikmyndamiðstöð Íslands og Kvikmyndaskóli Íslands.

Þá mun bíóið einnig hafa átt í samstafi við ýmsa aðra um sýningahald og kvikmyndatengda viðburði. Sjálfseignarstofnunin Heimili kvikmyndanna ses. rekur Bíó Paradís en stofnaðilar hennar eru fagfélög kvikmyndagerðarmanna, þ.e. Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Félag kvikmyndagerðarmanna og Samtök kvikmyndaleikstjóra auk Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar Stockfish og Félags kvikmyndaunnenda.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert