Lífeyrissjóðir auki veg kvenna í stjórnunarstöðum

Konur stýra 13% fyrirtækja sem hafa fleiri en 50 starfsmenn og engu fyrirtæki sem skráð er í kauphöllina hefur verið stýrt af konu frá árinu 2016. Þessar niðurstöður kalla á breytingar og á opnum fundi í HÍ var m.a. lagt til að stjórnir lífeyrissjóða gerðu kröfur um jafnara kynjahlutfall í eigendastefnu sinni.

„Lífeyrissjóðirnir eru stærstu fjárfestar á markaðnum, í skráðu félögunum eru þeir langstærstu fjárfestarnir. Þeir ættu að sýna samfélagslega ábyrgð í verki og setja inn í eigendastefnu sína að hlutfall hvors kyns [í framkvæmdastjórastöðum] yrði ekki undir 40%,“ segir Ásta Dís Óladóttir lektor við viðskiptafræðideild HÍ.  

Fyrir stuttu voru kynntu þau Ásta Dís, Gylfi Dalmann Aðalsteinsson dósent og Þóra H. Christiansen aðjunkt niðurstöður rannsóknar á misvægi kynjanna í stjórnunarstöðum hér á landi. Öll starfa þau við viðskiptadeild Háskóla Íslands og var fundurinn á vegum deildarinnar. Hann sóttu m.a. Jón Atli Benediktsson, rektor skólans, Vigdís Finnbogadóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, forsetafrúin Eliza Reid og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.

Í samtali við mbl.is segir Ásta Dís að vonir hefðu staðið til að lagasetning fyrir tíu árum, um jöfnun kynjahlutfalls í stjórnum fyrirtækja, myndi jafnframt skila fleiri konum í stjórnunarstöður í íslensku atvinnulífi. Komið hefur á daginn að það gerðist ekki.

Í pallborði fundarins voru þau Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, og Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar en Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri FKA stýrði fundinum. 

Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.
Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða. Ljósmynd/Aðsend

Þórey var býsna afdráttarlaus í sínum svörum um spurninguna um hvort lífeyrissjóðir gætu haft áhrif „Mér finnst ekki spurning að lífeyrissjóðirnir eigi að beita sér í jafnréttismálum í sinni eigendastefnu,“ svaraði hún en benti þó að þetta sé ekki einfalt í framkvæmd og að ekki séu allir sjóðirnir reknir með sama hætti. Árið 2016 hafi þingið samþykkt lög um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna þar sem þeir voru skyldaðir til að setja sér siðferðileg viðmið í sínum fjárfestingum. Matið þar væri vissulega huglægt en þar eru jafnréttissjónarmið engu að síður undir.

Þórey segir að á fleiri stöðum væri líka hægt að gera betur:

„Alþingi í sínum fastanefndum ætti að setja betra fordæmi þegar þar er verið að skipa í fastanefndir. Það eru sjö karlar en tvær konur í fjárlaganefnd. Peningar og völd fara saman við vitum það. Það eru sjö karlar og tvær konur í umhverfis- og samgöngunefnd. Það eru sex karlar og þrjár konur í efnahags- og viðskiptanefnd og það sama er í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd,“ sagði hún og beindi orðum sínum að stjórnmálafólkinu í salnum. Mikilvægt væri að kvenleg sjónarmið hefðu sterkari rödd þegar útdeiling fjármuna er annars vegar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert