„Þýðir ekkert annað en að halda sínu striki“

Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra Íslands í Kína, segir borgina ansi …
Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra Íslands í Kína, segir borgina ansi tómlega núna vegna kórónaveirunnar, sem þó hafi sína kosti þar sem hann hefur aldrei verið jafn fljótur á milli staða. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það er ósköp rólegt hérna og fátt fólk á ferli,“ segir Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra Íslands í Kína, í samtali við mbl.is. Hann er búsettur í Peking og var á leiðinni heim þegar blaðamaður náði tali af honum og vílaði ekki fyrir sér að taka niður andlitsgrímuna um stund. 

„Það þýðir ekkert annað en að halda sínu striki. Borgin er tómleg og það er tiltölulega lítil umferð, sem hefur sína kosti, það tekur engan tíma að komast á milli staða núna,“ segir Gunnar, en hann gerir ráð fyrir að það breytist eftir helgi þegar frídagar vegna kínverska nýársins verða liðnir, en þeir voru framlengdir um nokkra daga vegna kórónaveirunnar. 

Dauðsföll­um af völd­um kór­óna­veirunn­ar held­ur áfram að fjölga og hafa kín­versk yf­ir­völd staðfest að 170 eru látn­ir og 7.783 hafa smit­ast. 

Það er tómlegt um að litast á börum og kaffihúsum …
Það er tómlegt um að litast á börum og kaffihúsum í Peking þessa dagana. AFP

Svolítið eins og stofufangelsi

Um 40 Íslendingar eru búsettir í Peking og dreifast nokkuð um borgina. Flestir hafa látið vita af sér og sent sendiráðinu kveðju að sögn Gunnars. „Ég heyrði í ágætum vinum mínum og þau lýstu þessu svolítið eins og stofufangelsi, það er lítið um að vera.“

„Það er í sjálfu sér ekki mikið sem hægt er að gera, fólk er almennt rólegt yfir þessu,“ segir Gunnar en viðurkennir að aðstæðurnar í borginni séu sérstakar. „Þær eru það, það muna nú margir eftir SARS-veirunni fyrir 18 árum og þetta vekur upp minningar um það og ég held að stjórnvöld ætli sér að gera betur núna. Samskiptaformið er einnig annað núna, fólk er miklu meira í sambandi við hvert annað á samfélagsmiðlum og öðru slíku.“ 

Gunnar segir það þó einnig ýta undir óþarfan æsing. „Fjölmiðlar hafa gert svolítið extra drama úr þessu en mér finnst stundum eins og fólk geri sér heldur mikinn mat úr þessu og það vekur upp meiri ótta en ástæða er til.“

Sér­fræðing­ar við verk­fræðideild John Hopk­ins-há­skóla í Mary­land í Banda­ríkj­un­um hafa út­búið gagn­virkt kort þar sem hægt er að fylgj­ast með út­breiðslu kór­óna­veirunn­ar. Kortið má nálg­ast hér en það er upp­fært reglu­lega.

Fáir eru á ferli í Peking en þeir sem hætta …
Fáir eru á ferli í Peking en þeir sem hætta sér út nota andlitsgrímur til að verjast kórónaveirunni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert