Vilja takmarka áhrif hagsmunaárekstra

Frumvarpið byggist meðal annars á tillögum starfshóps forsætisráðherra um eflingu …
Frumvarpið byggist meðal annars á tillögum starfshóps forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu. mbl.is/Ófeigur

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mælti á Alþingi í gær fyrir frumvarpi til laga um varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

Frumvarpið byggist meðal annars á tillögum starfshóps forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu sem fram komu í skýrslu hópsins. Markmið þess er að takmarka áhrif hagsmunaárekstra á störf ráðherra, ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra og sendiherra í Stjórnarráði Íslands. Hluti frumvarpsins gildir einnig um aðstoðarmenn ráðherra.

Með frumvarpinu er æðstu handhöfum framkvæmdarvalds og aðstoðarmönnum ráðherra gert að tilkynna opinberlega um hagsmuni sína, gjafir og skuldbindingar, aðrar en vegna húsnæðis og bifreiða til eigin nota, minni skuldir við hefðbundnar lánastofnanir og skuldbindingar vegna námslána. Forsætisráðuneytið heldur skrá yfir upplýsingarnar og birtir þær almenningi að hluta.

Skýrari reglur um aukastörf

Í frumvarpinu eru einnig settar fram skýrari reglur um aukastörf en nú gilda; hvaða aukastörf og verkefni samrýmast störfum framangreindra aðila og hver ekki.

Þar segir meðal annars að störf handhafa framkvæmdarvalds og aðstoðarmanna ráðherra teljist full störf og þeim sé óheimilt að sinna aukastörfum, með undantekningum þó. Hægt sé að sækja um undanþágu til að sinna mannúðastörfum, kennslu- og fræðastörfum, vísindarannsóknum, listsköpun og öðrum tilfallandi störfum, svo framarlega sem það hafi ekki áhrif á störf viðkomandi og greiðslur teljist innan hóflegra marka.

Kveðið er á um takmarkanir á starfsvali handhafa framkvæmdarvalds að opinberum störfum loknum. Þá er gert ráð fyrir að haldin verði skrá yfir hagsmunaverði þ.e. þá sem tala máli einkaaðila gagnvart stjórnvöldum og leitast við að hafa áhrif á störf þeirra í atvinnuskyni.

Eftirliti, ákvarðanatöku og ráðgjöf með lögunum verður samkvæmt frumvarpinu fyrir komið hjá forsætisráðuneytinu. Forsætisráðherra getur með reglugerð mælt fyrir um að öðrum starfsmönnum Stjórnarráðs Íslands verði gert skylt að tilkynna innan síns ráðuneytis um tiltekna hagsmuni svo sem gjafir, aukastörf og fríðindi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert