Anna S. Sigurðardóttir, móðir Ölmu Sóleyjar Ericsdóttur Wolf sem grófst undir snjóflóði sem féll á Flateyri 14. janúar síðastliðinn, segir fjölskylduna vilja vera áfram á Flateyri.
„Staðan á fjölskyldunni er bara góð. Við erum í bráðabirgðahúsnæði en vonumst til þess að það verði hægt að finna handa okkur húsnæði,“ segir Anna í samtali við mbl.is.
Anna og fjölskylda hennar var á heimili sínu í Ólafstúni 14 á Flateyri þegar síðara snjóflóðið féll ofan við bæinn 14. janúar. Ólafstún 14 var eina húsið í bænum sem varð fyrir snjóflóðinu og grófst Alma, elsta dóttir Önnu, undir flóðinu í herbergi sínu en var bjargað um 40 mínútum síðar.
Að sögn Önnu er húsið mikið skemmt og eru eigendur þess að meta hvort það borgi sig að endurbyggja það, auk þess sem verið sé að gera nýtt hættumat vegna snjóflóða og skilgreina ný hættusvæði.
Margir furðuðu sig á því hversu rólegar þær mæðgur hefðu verið í kjölfar snjóflóðsins og veltu einhverjir því fyrir sér hvort þær ættu eftir að fá áfallið. Anna segir þær að minnsta kosti enn ekki hafa fengið bakslag.
„Hérna er náttúrlega allt á fullu, það er verið að skipuleggja þorrablótið Stútung sem er á morgun. Við erum í nefndinni og erum upptekin við að hugsa um það og halda áfram með lífið. Það er svolítið einkennandi hér; langflestir eru bjartsýnir og vilja bara halda áfram. Samfélagið hér er gott, fólkið stendur saman og heldur vel hvað utan um annað.“