Björgólfur og Gunnar sýknaðir í París

Áfrýjunardómstóll í París í Frakklandi hefur staðfest niðurstöðu undirréttar í …
Áfrýjunardómstóll í París í Frakklandi hefur staðfest niðurstöðu undirréttar í Landsbankamálinu, en fyrri dómurinn féll árið 2017. AFP

Áfrýjunardómstóll í París í Frakklandi hefur staðfest niðurstöðu undirréttar og sýknað Björgólf Guðmundsson, fyrrverandi aðaleiganda og stjórnarformann Landsbankans, og Gunnar Thoroddsen, fyrrverandi yfirmann Landsbankans í Lúxemborg, af ákæru um meint­ar blekk­ing­ar vegna veðlána sem bank­inn veitti fyrir bankahrunið 2008. 

Alls voru 9 ákærðir í málinu og voru þeir allir sýknaðir í undirrétti árið 2017 og nú hefur áfrýjunardómstóll staðfest þann dóm.

Björgólfur Guðmundsson.
Björgólfur Guðmundsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Í mál­inu var tek­ist á um hvort Lands­bank­inn í Lúx­em­borg hafi blekkt viðskipta­vini sína sem bank­inn veitti eins kon­ar lausa­fjár­lán með veði í fast­eign­um. Var hug­mynd­in að viðskipta­vin­ur­inn fengi hluta af verðmæti veðsins út­greitt en bank­inn fjár­festi fyr­ir af­gang­inn af veðinu þannig að lánþeg­inn þyrfti í raun ekki að borga lánið sjálf­ur til baka. Flest­ir sem lögðu verðmæti að veði fyr­ir lán­un­um voru elli­líf­eyr­isþegar.

Gunnar Thoroddsen.
Gunnar Thoroddsen.

„Feginn að þessari sneypuför sé lokið“

Gunnar Thoroddsen segir í samtali við mbl.is að hann hafi fengið þessi ánægjulegu tíðindi, sem hann bjóst við, fyrr í dag, að fjölskipaður dómur hafi komist að þessari niðurstöðu.

„Þetta er mikill léttir auðvitað, en staðfesting á því að það stóð aldrei steinn yfir steini í þessum málatilbúnaði,“ segir Gunnar. Þetta sé staðfesting á því sem þeir hafi haldið fram, þ.e. að bankinn hafi á engum tíma hagað sér í andstöðu við lög og reglur, og að nokkuð saknæmt hafi átt sér stað.

„Ég er þar með feginn að þessari sneypuför er lokið,“ segir Gunnar jafnframt.

Spurður út í framhaldið, segir Gunnar að hann eigi eftir að fara yfir dóminn en hann telur ólíklegt að málið fari fyrir hæstarétt í Frakklandi. 

Félix de Belloy, lögmaður Björgólfs, segir í samtali við franska fjölmiðla að niðurstaðan sé mikill léttir enda hafi málatilbúnaður ákæruvaldsins ekki verið á rökum reistur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert