„Það er ljóst að við þurfum að grípa til aðgerða. við erum í mjög erfiðum og viðkvæmum rekstri og þetta er helvítis högg fyrir okkur,“ segir Gunnar Gunnarsson, einn eigenda og ritstjóri Austurfrétta, um þær breytingar Íslandspósts að fella niður gjaldskrá fyrir „blöð og tímarit“ og færa blöð inn í almenna gjaldskrá með magnafslætti. Hækkun á kostnaði við dreifingu nemur um 28,5 prósentum í tilfelli Austurgluggans, sem gefinn er út af Útgáfufélagi Austurlands, líkt og Austurfrétt.
Gunnar segist alls ekki hafa átt von á hækkunum af þessu tagi og þær komi eðlilega illa við reksturinn.
„Það er langt umfram einhverjar verðlagshækkanir. Við erum búin að vera í þungum rekstri lengi, sem gildir um okkur og aðra héraðsfréttamiðla, að við erum að reyna að finna einhverjar leiðir og samhliða því eru allir að bíða eftir því að fjölmiðlafrumvarpið fari í gegn. Þessi hækkun fer þó langt með að éta upp það sem við myndum fá út úr fjölmiðlafrumvarpinu. Ríkið gefur í skyn að það ætli að gefa með annarri hendinni á meðan það er svo sannarlega búið að taka með hinni.“
Magnús Magnússon, ritstjóri Skessuhorns, tekur í sama streng og Gunnar. „Þetta kemur sér mjög illa. Þetta er 26 prósenta hækkun, á sama tíma og það er verið að boða lífskjarasamninga og stöðugleikasamninga og hvað þetta allt heitir. Þetta er enn ein skítasprengjan frá ríkinu í garð okkar litlu fjölmiðlanna.“
Magnús segir þó að Skessuhorn muni spjara sig. „Langstærstum hluta af okkar blöðum er dreift af okkur sjálfum, blaðburðarbörnum hjá okkur. Svo sendum við um 700 blöð í sveitirnar á Vesturlandi. Þetta er kannski ekki stærsti skellurinn fyrir okkur en þetta eru bara skítaskilaboð frá ríkinu. Við höfum fengið hækkanir á hverju einasta ári síðustu 20 árin. Við sjáum nú fram á að mögulega sé ódýrara fyrir okkur að halda úti okkar eigin rafmagnsbíl og keyra með blöðin í póstkassana, heldur en að kaupa þessa þjónustu af fyrirtækinu sem gefur sig út fyrir að sinna slíkri þjónustu.“
Fyrir utan að leggja niður flokkinn „blöð og tímarit“ tilkynnti Íslandspóstur það einnig í vikunni að dreifingu á ónafnmerktum fjölpósti yrði hætt á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi, Selfossi og Reykjanesi. Breytingarnar taka gildi 1. maí næstkomandi. Þessar breytingar koma sér illa fyrir þá héraðsfréttamiðla sem gefið hafa út fríblöð. Miðlar eins og Víkurfréttir á Suðurnesjum þurfa nú að finna nýjar leiðir til að koma blöðunum til lesenda.
„Við erum búin að vera með fríblað síðan 1980. Fyrstu tvö, þrjú árin var blaðinu dreift í verslanir, bensínstöðvar og á fleiri stað hér á Suðurnesjum. Þegar við fórum að gera þetta af meiri alvöru árið 1983 þá réðum við okkar blaðburðafólk en nokkrum árum síðar þá fór Pósturinn að bjóða upp á þessa þjónustu, sem var mun þægilegra. Það er gríðarleg vinna að halda utan um slíkt. Þetta eru því mjög vondar fréttir fyrir okkur og ég veit ekki hvað við gerum,“ segir Páll Hilmar Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta.
Hann vonast til að einhver sjái tækifæri breytingum hjá Íslandspósti og fari að bjóða upp á dreifingu á svæðinu. Gerist það ekki verði hann að breyta dreifingunni eitthvað. Ein leiðin væri að bjóða fólki að gerast áskrifendur og merkja blöðin. Áskriftin yrði þá væntanlega einungis kostnaðarverð við dreifinguna, en það að merkja póstinn yrði alltaf einhver aukavinna. Önnur leiðin væri að fara aftur til upphafsins og dreifa blöðunum víða á opinberum stöðum. „Þá geta einhverjir sparað sér kolefnissporið, en við finnum það samt enn þá að fólk vill fá blaðið til sín. Við heyrum ekki annað og höfum fengið sterk viðbrögð við því.“
Páll segir aðstandendur Víkurfrétta aðeins ætla að sofa á þessu, en ef það gerist ekkert sem henti þeim á næstu vikum þá verði teknar einhverjar ákvarðanir varðandi dreifinguna. „Það er allavega ljóst að við verðum að hafa frekar hraðar hendur hvað þetta varðar.“