Háskólabíó tæki Bíó Paradís opnum örmum

Hér sést Háskólabíó að baki Aðalbyggingar Háskóla Íslands.
Hér sést Háskólabíó að baki Aðalbyggingar Háskóla Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stjórnendur Senu vilja bjóða Bíó Paradís aðstöðu í Háskólabíói og eru tilbúnir að skoða hvaða rekstrarform sem er svo hægt sé að tryggja áframhaldandi starfsemi þessa mikilvæga menningarkvikmyndahúss.

Þetta segir Jón Diðrik Jónsson, forstjóri Senu, í samtali við mbl.is. Fjallað var um í gær að vegna húsnæðisvandræða Bíós Paradísar lyki starfsemi þess að óbreyttu 1. maí og að starfsfólki í afgreiðslu þess hefði þegar verið sagt upp.

Kvikmyndahúsið Regnboginn, sem rekið var af Senu, var áður í húsnæðinu á Hverfisgötu 54. „Við rákum þarna Regnbogann til margra ára og það var taprekstur á honum. Mér finnst hins vegar búið að vera virkilega gott starf hjá Bíó Paradís og öflugt og mikilvægt starf sem þar er.“

„Hluta af þessu höfum við verið að gera í Háskólabíói, við erum að sýna listrænar myndir og höfum lagt áherslu á íslenskar kvikmyndir,“ segir Jón Diðrik.

„Við höfum viljað bjóða Bíó Paradís velkomið í Háskólabíó og tryggja að það sé öflugt menningarbíó til og við erum til í að skoða hvers konar rekstrarform í því svo hægt sé að tryggja áfram menningarlega kvikmyndahúsastarfsemi, fræðslu og fleira. Í Háskólabíói er góð aðstaða og hægt að efla hana, bæði veitingaaðstöðu og annað, og þá væri hægt að tryggja að það væri allavega til eitt kvikmyndahús sem sinnti þessu á mjög öflugan hátt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert