Áróður frá nýnasistasamtökunum Norðurvígi hefur verið hengdur upp í tvígang á gám sem stendur við Menntaskólann við Sund.
Mbl.is fékk ábendingu um málið frá áhyggjufullu foreldri, sem tók í gær ljósmynd af tveimur áróðursplöggum frá samtökunum á gámnum, sem voru í kjölfarið tekin niður. Síðdegis í dag hafði verið límt upp annað plagg annars staðar á gámnum, sem stóð þar enn þegar ljósmyndari mbl.is smellti af því mynd. Gámurinn hefur verið notaður af skólanum sem geymslurými.
„Ég hef viðurstyggð á þessu og mun láta fjarlægja þetta einn, tveir og þrír,“ sagði Már Vilhjálmsson, rektor MS, sem hafði ekkert heyrt af þessum áróðri þegar blaðamaður hafði samband.
Már segist ekki vita til þess að svona lagað hafi áður verið hengt upp við skólann. Hingað til hafi skólinn átt í vandræðum með veggjakrot en ekki áróðursstarfsemi sem þessa. „Þetta endurspeglar að einhverju leyti þjóðfélagið í dag þar sem öfgarnar eru að verða meiri og meiri,“ segir hann.
Spurður hvort þetta sé lögreglumál segir hann að vissulega sé um eignarspjöll að ræða. Til að mynda hafði skólinn nýverið samband við lögregluna eftir að krotað var á sérpantað, grænt gler í tengibyggingu skólans.
Um klukkutíma eftir samtal blaðamanns við Má hafði hann samband aftur og hafði þá farið á staðinn með húsverði MS og þeir fjarlægt áróðurinn. Einnig gengu þeir um alla lóðina, bæði við MS og Vogaskóla, til að ganga úr skugga um að engin fleiri plögg væri þar að finna. Svo reyndist ekki vera. „En við verðum á tánum. Ef það er verið að hengja svona upp eru alveg eins líkur á því að það verði gert aftur.“
Í nóvember síðastliðnum var áróðri frá Norðurvígi dreift á svæði Háskóla Íslands og sagðist Jón Atli Benediktsson rektor hafa í framhaldinu beðið umsjónarmenn fasteigna skólans um að vera á varðbergi og henda öllum slíkum áróðri í ruslið.
Háskólaneminn Muhammed Emin Kizilkaya skrifaði í aðsenda grein í Morgunblaðinu þar sem hann fordæmdi athæfið.
Liðsmenn Norðurvígis hafa áður dreift áróðri á Kársnesinu og Lækjartorgi í Reykjavík.