„Þetta er rosalegur harmleikur“

Ingigerður segir félagið ekki vera að hylma yfir neitt, þau …
Ingigerður segir félagið ekki vera að hylma yfir neitt, þau vilji einfaldlega ná utan um málið áður en farið verði lengra með það. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Starfsmaður hjá íþróttafélaginu ÍR varð uppvís að fjárdrætti í nóvember síðastliðnum og er málið nú til rannsóknar innan félagsins. Ekki hefur hins vegar verið tekin ákvörðun um hvort það verði kært til lögreglu. Mannlíf greindi fyrst frá fjárdrættinum.

Ingigerður Guðmundsdóttir, formaður aðalstjórnar ÍR, staðfestir í samtali við mbl.is að rannsókn á málinu standi yfir hjá félaginu. Lögfræðingur sem starfar fyrir ÍR hafi ráðlagt þeim að rannsaka málið til hlítar áður en það yrði kært til lögreglu, þess vegna hafi sú leið verið farin.

Hún segir ekki verið að hylma yfir neitt, heldur vilji þau einfaldlega ná utan um málið áður en tekin verði ákvörðun um kæru. „Það er ekki allt komið. Þetta eru auðvitað bara sjálfboðaliðar sem eru í svona stjórn og það er mikilvægt að við vitum algjörlega málavexti.“ Rannsóknin sé þó á lokametrunum. Þegar henni ljúki verði skýrslan tekin fyrir á fundi aðalstjórnar og í framhaldinu tekin afstaða í málinu.

Á börn sem æfa með ÍR

Ingigerður segir ekki hafa verið um tugi milljóna króna að ræða, líkt og Mannlíf segist hafa heimildir fyrir. En hún staðfestir að um verulegar upphæðir hafi verið að ræða. „Þetta eru alveg upphæðir fyrir svona félag. Auðvitað skiptir þetta máli, hver króna skiptir máli.“

Málið hefur verið erfitt fyrir þetta litla íþróttasamfélag í Breiðholtinu, að sögn Ingigerðar. Einstaklingurinn sem um ræðir eigi til að mynda börn sem æfi með félaginu. „Þetta er rosalegur harmleikur og bara ömurlegt. Þetta er svo lítið og gott samfélag og hann þar á meðal.“

Hún segir einstaklinginn hafa strax hætt störfum fyrir félagið um leið og fjárdrátturinn uppgötvaðist. „Það var ekki þannig að þetta hefði uppgötvast í nóvember og hann hætt í desember. Hann bara sjálfur tók þá ákvörðun. Þetta voru mistök,“ segir Ingigerður, en í Mannlífi kom fram að málið hefði komið upp í nóvember og starfsmaðurinn verið látinn fara í desember. Ingigerður segir það ekki rétt. Hann hafi hætt strax. Þá hafi hann strax greitt alla fjárhæðina til baka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert