Læknar á veirufræðideild Landspítala Íslands geta núna greint kórónaveiruna fari svo að hún komi upp hérlendis.
„Við erum búin að fá það staðfest að þetta virkar allt rétt þannig að okkur er ekkert að vanbúnaði,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, sem segir þetta mikinn kost.
Yfir 250 manns eru látnir af völdum kórónaveirunnar og næstum 12 þúsund manns eru smitaðir. Enginn hefur greinst með veiruna hérlendis.
Sýni verða aðeins tekin frá þeim sem eru með grunaða veirusýkingu. Einkennalaust fólk getur ekki komið og tekið prófið, að sögn Þórólfs, sem leggur sérstaka áherslu á þetta.
Framkvæmdin er þannig að sýnið er tekið úr öndunarfærum en allt sem þarf í prófið var fengið erlendis frá.
Þórólfur segir undirbúning vera í fullum gangi varðandi viðbragðsáætlanir í tengslum við veiruna og menn hafi því í nógu að snúast.