Stoppaði á 50 metra fresti

Andreas Prochaska, kvikmyndaleikstjóri frá Austurríki.
Andreas Prochaska, kvikmyndaleikstjóri frá Austurríki. Rax / Ragnar Axelsson

„Landslagið og birtan eru göldrum líkust og hafi maður áhuga á hinu sjónræna hlýtur maður að heillast af Íslandi. Ég gekk að vísu alveg fram af konunni minni þegar við komum hingað fyrst enda nam ég staðar á fimmtíu metra fresti til að taka myndir. Birtan og litirnir breytast svo hratt hérna. Eina mínútuna er allt grátt en litadýrð þá næstu sem myndavélin nær varla að höndla.“

Þetta segir austurríski kvikmyndaleikstjórinn Andreas Prochaska en hann leggur nú drög að kvikmynd sem gerast mun á Íslandi. Eins og orðin hér að ofan gefa til kynna féll Andreas í stafi þegar hann kom hingað fyrst fyrir fjórum árum. „Það fyrsta sem ég sagði við Ingvar [Þórðarson, kvikmyndaframleiðanda] eftir þessa fyrstu heimsókn var að ég vildi ólmur gera kvikmynd á Íslandi,“ segir Andreas sem líklega er þekktastur fyrir að hafa gert sjónvarpsþættina Das Boot árið 2018. 

Myndin sem Andreas er með á teikniborðinu og er að svipast um eftir heppilegum tökustöðum fyrir núna hefur vinnuheitið Dead End. „Þetta er svona vestri/tryllir/hasarmynd um konu á flótta sem leitað hefur skjóls í litlu þorpi á Íslandi ásamt börnum sínum. Lengra kemst hún ekki,“ segir Andreas en handritið skrifa Íslendingarnir Ottó Geir Borg og Gunnar Örn Arnórsson.

Andreas hlakkar til að sýna áhorfendum Ísland í því sem hann kallar „rétt ljós“. „Ísland hefur oft verið vettvangur alþjóðlegra verkefna en ekki sem Ísland. Þá er ég að tala um Star Wars, Prometheus, Game of Thrones og þess háttar verkefni. Mér finnst miklu meira spennandi að sýna Ísland sem Ísland og finna sögur sem tengjast þessu fallega landi og fólkinu sem býr hérna.“

Hann segir undirbúning vel á veg kominn og gerir ráð fyrir að koma aftur eftir páska til að skoða fleiri hugsanlega tökustaði, einkum fyrir norðan. „Okkur miðar vel; allir eru á sömu blaðsíðu og nú bíðum við bara eftir að handritið verði endanlega klárt og fjármögnun ljúki. Ég veit ekki hversu margar milljónir evra við þurfum. Mætti ég biðja jólasveininn um eitthvað þá yrði efst á listanum að hefja tökur á næsta ári.“

Nánar er rætt við Andreas Prochaska í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert