Vöktu athygli á mannréttindabrotum Írana

Félagsmenn notuðu pappaspjöld til að teikna útlínurnar, sem eiga að …
Félagsmenn notuðu pappaspjöld til að teikna útlínurnar, sem eiga að minna fólk á mannréttindabrot íranskra stjórnvalda. Ljósmynd/Aðsend

Ungliðahreyfing Amnesty International stóð í dag fyrir táknrænni aðgerð á Lækjartorgi, þar sem teiknaðar voru útlínur fjölda þeirra sem hafa látist í aðgerðum íranskra stjórnvalda gegn friðsamlegum mótmælum þar í landi.

Íslandsdeild Amnesty International hefur að undanförnu vakið athygli á stöðu mannréttinda í Íran, en í tilkynningu frá félaginu segir að yfirvöld hafi þar staðið fyrir grimmilegum aðgerðum í kjölfar mómtæla sem brutust út í nóvember. Samkvæmt skýrslum Amnesty International voru að minnsta kosti 304 myrtir, auk þess sem þúsundir manna særðust dagana 15. til 18. nóvember er yfirvöld leystu upp friðsamleg mótmæli.

Fékk 16 ára dóm fyrir að hylja ekki hárið

Íslandsdeildin kallar meðal annars eftir því að íslensk stjórnvöld veki athygli á stöðu mannréttinda í Íran og krefjist þess á alþjóðavettvangi að sérstakur fundur verði haldinn í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, sem Íslendingar áttu sæti í til áramóta, um málið. Þá verði rannsókn gerð á ólögmætum aftökum á mótmælendum, handtökum, mannshvörfum og pyntingum.

Sömuleiðis kallar Amnesty International eftir því að Yasaman Aryani, 24 ára gömul baráttukona, verði leyst úr haldi en hún var dæmd í 16 ára fangelsi í fyrra fyrir að hafa á alþjóðlegum baráttudegi kvenna gengið með hárið óhulið um lestarvagn sem aðeins var ætlaður konum.

Ljósmund/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert