„Við erum íslensku þjóðinni afar þakklát,“ segir Faisal Rehman khan Balouch, faðir hins sjö ára gamla Muhammeds. Stuðningurinn hefur verið mikill og varð til þess að ríkisstjórnin sá sér ekki annað fært en að fresta brottvísun fjölskyldunnar. Besta gjöfin sem þau gátu hugsað sér en Muhammed átti afmæli um helgina og fékk fjölda gjafa frá vinum sínum í Vesturbæjarskóla.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra tilkynnti í gær eftir mikinn þrýsting frá almenningi að til stæði að stytta meðferðartíma í málum hælisleitenda þar sem börn eiga í hlut. Hátt í tuttugu þúsund undirskriftir söfnuðust til stuðnings fjölskyldunni á stuttum tíma. Áslaug tilkynnti því að hún myndi á næstunni kynna í ríkisstjórn áform um að stytta hámarkstíma málsmeðferðar úr 18 mánuðum í 16 mánuði í þeim málum hælisleitenda þar sem börn eiga í hlut. Ákvörðunin varð til þess að brottvísun fjölskyldunnar sem átti að vera í dag var frestað.
Fjölskylda Muhammeds sótti um hæli hér á landi í lok árs 2017 og hefur dvalið hér í 26 mánuði. Muhammed hefur á þeim tíma lært íslensku afar vel eins og heyrist í myndskeiðinu sem fylgir fréttinni. Þar er litið í heimsókn til fjölskyldunnar og rætt um tíðindi helgarinnar.
Þau Faisal og Niha Sohail Aslam Khan, foreldrar Muhammeds sem koma frá Pakistan, heyrðu tíðindin fyrst í fjölmiðlum. Þau hafa ekkert heyrt frá yfirvöldum og bíða nánari upplýsinga um framhaldið.