„Við bíðum eftir frekari upplýsingum frá ráðuneytinu. Hvort ráðherra setji reglugerð eða hvort fyrirhugað sé að breyta lögum. Ég held að það sé ekki tímabært að nefndin bregðist við fyrr en ljóst er hvað ráðherra hyggst gera,“ segir Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður kærunefndar útlendingamála.
Nokkur mál falla undir þær breytingar sem sem dómsmálaráðherra gerði í gær um að fresta brottvísun barna í þeim málum þar sem málsmeðferð hafi farið yfir 16 mánuði. Ekki er vitað nákvæmlega hversu mörg málin eru, að sögn Hjartar.
Nefndin þarf að skoða þetta út frá jafnræðissjónarmiðum og teknar verða ákvarðanir út frá því, að sögn Hjartar. Nefndin kemur saman á fimmtudaginn í þessari viku en Hjörtur segir að nefndin muni að öllum líkindum ekki fjalla á þeim fundi um hvaða afleiðingar þessi ákvörðun ráðherra hefur.
Í gær ákvað dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, að fresta því að vísa hinum sjö ára gamla Muhammed Zohir Faisal og foreldrum hans úr landi í dag. Fyrirhugaðri brottvísun þeirra var harðlega mótmælt um helgina meðal annars með undirskriftalista.
Fjölskylda Muhammeds sótti um hæli hér á landi í lok árs 2017 og hefur því dvalið hér í 26 mánuði. Á þeim tíma hafa þau aðlagast lífinu á Íslandi vel, sérstaklega Muhammed sem stundar nám í Vesturbæjarskóla og unir sér vel. Hann talar lýtalausa íslensku, á fjölda vina og þykir afburðanámsmaður.