Komi til þess að raforkuframleiðsla stöðvist í Svartsengi væri eina leiðin til að senda raforku á svæðið með Suðurnesjalínu 1, sem liggur frá Hafnarfirði að Reykjanesbæ. Hún gæti þó ekki annað álaginu sem þessu fylgdi og yrði raforkuleysi á hluta Suðurnesja því óhjákvæmilegt. Þá er því ósvarað með hvaða hætti raforka verði flutt til Grindavíkur undir þessum kringumstæðum.
Þetta kom fram í máli Birgis Þórarinssonar, þingmanns Miðflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
„Ljóst má vera að þörfin fyrir Suðurnesjalínu 2 er brýn. Öryggisþátturinn vegur þar þungt, ekki síst í ljósi þess sem ég hef rakið hér. Deilt hefur verið um lagningu línunnar frá því að Landsnet fékk heimild fyrir henni árið 2013 eða í ein sjö ár,“ sagði Birgir, en hann beindi fyrirspurn sinni til Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og spurði hver staðan væri á Suðurnesjalínu 2.
Þórdís Kolbrún tók undir með Birgi og sagði rétt að þörfin fyrir Suðurnesjalínu 2 væri brýn og minnkaði alls ekki eftir því sem tíminn líður.
„Aðstæður eins og nú hafa skapast sýna enn frekar hversu mikilvægt er að klára þessa framkvæmd sem hefur tekið allt of langan tíma. Þegar spurt er hvað ráðherra ætli að gera til að flýta ferlinu þá höfum við komið því þannig fyrir að það er ansi lítið svigrúm fyrir ráðherra til að stíga inn í einstaka framkvæmdir. Við erum með regluverk sem ég hef oft sagt að mér finnist of flókið og of svifaseint; skortur á samlegð þegar svona stórar ákvarðanir eru teknar.“
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/02/16/stadfestir_dom_um_sudurnesjalinu/
Sagðist Þórdís Kolbrún vonast til þess að það takist að breyta regluverkinu þannig að dæmi eins og uppbygging Suðurnesjalínu 2 heyri sögunni til. Það sé hluti af því að geta tryggt þjóðaröryggi.
Benti Birgir á að bæði sveitarfélagið Vogar og landeigendur væru á því að leggja skyldi Suðurnesjalínu 2 í jörðu og að Vegagerðin hefði sagt það gerlegt að leggja streng í jaðar veghelgunarsvæðis Reykjanesbrautarinnar. Hins vegar muni Landsnet að öllum líkindum sækja um framkvæmdaleyfi á þessu ári, byggt á meginvalkosti þess, loftlínu meðfram Suðurnesjalínu 1. Sagði Birgir mikilvægt að sátt næðist um málið.
Þórdís Kolbrún sagðist ekki taka afstöðu til þess hvor kosturinn væri betri. „Ég vil bara að þessari framkvæmd ljúki. Þetta hefur tekið allt, allt of langan tíma og það er eitthvað að í regluverki okkar þegar við erum með dæmi þess þrátt fyrir að skýringarnar séu mismunandi og framkvæmdirnar misjafnar sömuleiðis.“