Vetur konungur er svo sannarlega að gera vart við sig á fjallinu K2, sem fjallagarpurinn John Snorri klífur þessa dagana ásamt fríðu föruneyti. Útlit er fyrir slæmt veður á fjallinu út vikuna og er John Snorri kominn aftur niður í grunnbúðir en stefnan var sett á grunnbúðir tvö um helgina.
John Snorri og göngufélagi hans Tomaz Rotar hafa náð að festa öryggislínur upp í 6.600 metra hæð fyrir leiðina upp í grunnbúðir tvö en hafa ekki náð að komast lengra sökum veðurs.
„Við erum með sérstaka áætlun að sjálfsögðu fyrir K2-vetrarleiðangurinn en náttúruöflin munu eiga síðasta orðið. En móðir náttúra hefur ákveðið að ylja okkur með sólargeislum sínum í dag eftir ansi kalda daga,“ segir í facebookfærslu leiðangursins. John Snorri og Rotar hafa unnið í um 30 stiga frosti síðustu daga við að festa öryggislínur.
Tindur K2 er í 8.611 metra hæð. Fjallið er það næsthæsta í heimi og stefnir John Snorri á að verða fyrsti maðurinn sem kemst á topp þess að vetri til.