Vaxtaberandi skuldir Íslandspósts hafa lækkað úr 3,4 milljörðum króna í 1,9 milljarða og rekstrarhagnaður fyrir afskriftir nam 480 milljónum í stað 50 milljóna.
Þetta upplýsir Birgir Jónsson forstjóri um innihald ársreiknings fyrir árið 2019 sem verður kynntur stjórn félagsins í vikunni. Hann segir þetta árangur af aðhaldsaðgerðum.
Árið 2020 verður nýtt til að stórbæta þjónustu við fyrirtæki og almenning. „Framtíðin í starfsemi Póstsins er öll í pökkunum og þurfum við bæði að verða verðmætari samstarfsaðilar netverslana og leita leiða til að þjónusta heimilin betur,“ segir Birgir. Ætlunin er að gefa fólki kost á að sækja pakka á bensínstöðvar eða í matvöruverslanir, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.