Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segist ekki geta stutt áróðursherferð Eflingar í kjaraviðræðum stéttarfélagsins við Reykjavíkurborg. Hann segir himin og haf á milli þess að styðja Eflingu og að styðja láglaunafólk.
Þetta kemur fram í færslu Björns á Facebook sem hann birti í gærkvöldi.
„Áróðursherferðin sem er í gangi núna er heldur ekki eitthvað sem ég get stutt. Þar kristallast kannski helst munurinn á því að ég styð láglaunafólk en ekki Eflingu. Á meðan ég vona að þau nái góðum samningum þá get ég ekki stutt aðferðina,“ skrifar þingmaðurinn.
Björn segir að hann hafi ávallt stutt kjarabaráttu launafólk enda kominn þaðan sjálfur. „Fyrsta starfið mitt eftir framhaldsskóla var starfsmaður í leikskóla, sem ég hef oft sagt vera besta starfið sem ég hef verið í og ef launin hefðu verið hærri væri ég þar kannski enn,“ skrifar hann.
Hann bætir því við að launin ættu að vera hærri og vinnutíminn styttri.
Björn segir enn fremur að tilgangurinn helgi ekki meðalið:
„Fólk sem spyr mig, "styður þú Eflingu" og ætlast til þess að það sé samasemmerki á milli þess og að styðja láglaunafólk ... nei og nei. Á meðan ég styð kjarabætur láglaunafólks þá þýðir það ekki að ég styðji það skilyrðislaust. Ég bara virka þannig. Ég geri mér væntingar um meiri styttingu vinnuvikunnar, áróðurslausa umræðu og betri kjör. Eins og ég sé þetta þá tikkar núverandi kjaradeila í eitt af þeim boxum. Gangi þeim sem allra best með það og betur með hitt,“ skrifar Björn.