Jóhann Ólafsson
Fundi í kjaradeilu Eflingar við Reykjavíkurborg er lokið án samkomulags og því ljóst að verkfallsaðgerðir Eflingar hefjast klukkan 12:30 á morgun eins og boðað hafði verið.
Þetta staðfestir Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar, en deiluaðilar funda aftur á miðvikudag klukkan 15:00.
Verkfallsaðgerðir munu hafa áhrif á 63 leikskóla borgarinnar, hjúkrunarheimili, þjónustuíbúðir og sorphirðu í borginni og tekur til 1.850 starfsmanna.
Harpa segir að það hafi verið ófrávíkjanleg krafa Eflingar að niðurstöður í vaktavinnuhópi klárist fyrst. Fundað verði um þau mál á miðvikudagsmorgun og því segir Harpa að það hafi nánast verið ómögulegt að ganga frá einhverjum samningi fyrir það.
Ljóst er að vinnustöðvun verður því á morgun en dagskrá hennar og annarra fyrirhugaðra stöðvana má sjá hér að neðan:
Þriðjudagur 4. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 12:30 og fram til klukkan 23:59.
Fimmtudagur 6. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 00:01 og fram til klukkan 23:59.
Þriðjudagur 11. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 12:30 og fram til klukkan 23:59.
Miðvikudagur 12. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 00:01 og fram til klukkan 23:59.
Fimmtudagur 13. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 00:01 og fram til klukkan 23:59.
Mánudagur 17. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 00:01 og ótímabundið eftir það.