Áhöld um fordæmisgildi lífskjarasamnings

Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar á opnum fundi félagsins í Iðnó …
Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar á opnum fundi félagsins í Iðnó í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert

Í haust sömdu fjögur aðildarfélög Bandalags háskólamanna við ríkið til fjögurra ára. Sá kjarasamningur fól í sér krónutöluhækkanir á taxtalaun, sem voru í sumum tilfellum töluvert hærri en þær hækkanir sem samið var um í lífskjarasamningum á almenna vinnumarkaðnum í vor. Því hærri launum sem fólk var á fyrir samningsgerðina, því meiri krónutöluhækkanir sér það fram á að fá á samningstímanum.

Þetta hefur forysta Eflingar gert að umtalsefni í yfirstandandi kjarabaráttu félagsmanna sinna í Reykjavíkurborg, sem í dag eru í sínum fyrstu verkfallsaðgerðum af nokkrum boðuðum.

Á vef Eflingar er bent á það, í úttekt á launatöflum þessa kjarasamnings BHM-félaganna fjögurra, að þeir sem eru þar í hæsta launaflokki og með 885 þúsund krónur í mánaðarlaun fyrir undirritun kjarasamnings hækka í launum um tæpar 111 þúsund krónur á samningstímabilinu, eða tæpum 43 þúsundum meira en þeir félagsmenn sömu félaga sem fá taxtahækkanir í samræmi við lífskjarasamninginn.

„Er það ekki nokkuð augljóst?“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, spurður af hverju Efling haldi þessu til haga nú. „Í umræðunni hefur verið fjallað um þennan lífskjarasamning sem ramma fyrir aðra kjarasamninga, jafnvel mjög fastan ramma kjarasamningsgerðar yfirleitt. En þessi kjarasamningur við BHM-félögin sem þarna er gerður af hálfu ríkisins sýnir að það eru greinilega mikil áhöld um það hvernig litið er á fordæmisgildi lífskjarasamningsins eftir því hvaða hópar eiga í hlut,“ segir Viðar.

Efling hefur gert kröfu um sérstaka leiðréttingu á launum þeirra starfsmanna borgarinnar sem lægst hafa launin og eru nú í verkfalli. Í umfjöllun um kröfugerð Eflingar á vef stéttarfélagsins segir að þessi leiðrétting myndi þýða að á bilinu 22-52 þúsund krónur myndu bætast ofan á mánaðarlaun þeirra starfsmanna sem leiðréttingin tekur til, til viðbótar við hækkanir lífskjarasamningsins.

„Örlát aðlögun“ ríkisins að þörfum hálaunafólks

„Því hefur verið haldið fram að krafa okkar um sérstaka launaleiðréttingu láglaunafólks hjá Reykjavíkurborg sé á einhvern hátt í ósamræmi við lífskjarasamninginn, en við höfum á móti sagt að þar er verið að heimfæra og aðlaga markmið og forsendur lífskjarasamningsins. Við bendum á að í tilfelli BHM-samninganna hefur verið gerð mjög frjálsleg og örlát aðlögun að kröfum eða þörfum ákveðins hóps, í þessum tilfelli hálaunafólks. Það virðist ekki endilega vekja mikla athygli. Það hefur ekki verið rætt um það sem „svik“ eða „skemmdarverk“ svo ég vísi til orða sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins notaði í nýlegum reiðipistli vegna kjarabaráttu láglaunakvenna hjá borginni,“ segir Viðar.

Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar, sagði hvorki hann né nokkurn annan hjá Reykjavíkurborg geta svarað efnislegum spurningum um viðræðurnar við Eflingu í dag. Viðræðurnar væru í höndum samninganefndar borgarinnar og næsti fundur í deilunni færi fram á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert