Gámar, bílar og brotajárn í leyfisleysi

Vaka hf. hefur komið fyrir bílflökum á athafnasvæði sínu í …
Vaka hf. hefur komið fyrir bílflökum á athafnasvæði sínu í Mosfellsbæ. mbl.is/Baldur Arnarson

„Okkar túlkun er sú að starfsemin sé starfsleyfisskyld,“ segir Þorsteinn Narfason, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis, um fyrirtækið Vöku hf. sem hefur komið bílflökum fyrir á athafnasvæði sínu á Tungumelum í Mosfellsbæ. Vaka hf. er eigandi lóðarinnar og jafnframt ábyrg fyrir góðri umgengni og að ekki sé mengun af geymslu tækja. 

Frá árinu 2018 hafa bílflök verið geymd á svæðinu í óleyfi því ekki hefur verið sótt um starfsleyfi fyrir geymslusvæði fyrr en nú. Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis hefur reglulega farið í eftirlitsferðir á svæðið og gerir athugasemdir við þessa óleyfisgeymslu. Ein slík eftirlitsferð var farin þangað í dag. Þarna er verulegt magn bíla og gáma og brotajárns í leyfisleysi og er heldur að bætast við það safn, að sögn Þorsteins. 

Í byrjun desember 2019 sótti Vaka hf. um starfsleyfi til heilbrigðiseftirlitsins fyrir geymslusvæði fyrir bifreiðar og tæki á Leirvogstungumelum.  

Að sögn Þorsteins bíður Heilbrigðiseftirlitið eftir að sjá saming milli Mosfellsbæjar og Vöku þannig að unnt sé að taka tillit til hans við veitingu starfsleyfis meðal annars þannig að starfsleyfið sé veitt í samræmi við skipulag. „Við ætlum að bíða eftir því og sjá samning Vöku við Mosfellsbæ áður en við tökum starfsleyfið fyrir,“ segir Þorsteinn. 

Ístak á samliggjandi lóð við Vöku hf. og á þeirri lóð hefur verið samþykkt starfsleyfi fyrir geymslusvæði fyrir búnað og tæki fyrirtækisins. Það leyfi var gefið út 6. janúar 2020. Fordæmi eru því fyrir því að veita starfsleyfi fyrir geymslusvæði. 

Vaka hf. býður upp á dráttarbílaþjónustu, bílaviðgerðir, dekkjaskipti og selur bílaparta. „Ef fyrirtækið sækir um starfsleyfi fyrir niðurrifI á bílum þá þarf það að fara í allt annan farveg. Engar forsendur fyrir því að afgreiða það á þessu stigi þar sem allar mengunarvarnir og aðstöðu vantar,“ segir Þorsteinn. 

Þorsteinn bendir á að þetta mál sé flókið. Landeigandi hefur eitthvert svigrúm til að geyma hluti á sínu landi en óheimilt sé að hefja starfsemi án þess að vera með starfsleyfi. Starfsemi Vöku felst meðal annars í því að flytja bíla milli svæða og geyma þá tímabundið. „Eitt af því sem yrði sett sem skilyrði í starfsleyfi er að svæðið draslist ekki út og mengist og við myndum vilja girða fyrir það með starfsleyfi og eftirlit með starfseminni,“ segir Þorsteinn.

Hann tekur fram að Heilbrigðiseftirlitið vinni þetta mál í samstarfi við Mosfellsbæ. „Ég geri ráð fyrir að starfseminni verði veitt starfsleyfi með skilyrðum,“ segir hann. Hann tekur fram að það sé engin beinlínis hætta á ferð að hafa bílana þarna, þess vegna hafi Heilbrigðiseftirlitið ekki verið farið í að fjarlægja þá af svæðinu þótt útlitslýti sé vissulega af þessu. Ef olíumengun yrði á svæðinu væri hægt að gera kröfu á landeiganda að fjarlægja hana. 

Þorsteinn vonast til að ekki þurfi að grípa til þvingunarúrræða vegna þessarar óleyfisstarfsemi þar sem slíkt ferli getur verið æði flókið og kostnaðarsamt fyrir fyrirtækið þar sem um verulegt magn bíla og tækja er að ræða.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert