„Í rauninni er þetta ekki boðlegt“

Sigríður Þórðardóttir hefur verið leikskólastjóri á Árborg í 32 ár …
Sigríður Þórðardóttir hefur verið leikskólastjóri á Árborg í 32 ár og þetta er í fyrsta sinn sem starfsfólk á skólanum leggur niður störf. Hún styður kröfur Eflingar heilshugar og segir laun leikskólaliða ekki boðleg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

43 af 54 börnum á leikskólanum Árborg í Árbæ voru send heim í hádeginu vegna verkfallsaðgerða Eflingar. Ellefu börn eru eftir í skólanum. Sigríður Þórðardóttir hefur verið leikskólastjóri á Árborg í 32 ár og þetta er í fyrsta sinn sem starfsfólk á skólanum leggur niður störf. 

„Þetta er alveg ný reynsla. Það er svolítið sérstakt að vita ekki hvort við séum að fara að ganga inn í langt tímabil eða hvort þetta sé bara þessi vika. Auðvitað hefur þetta áhrif á allt,“ segir Sigríður í samtali við mbl.is. 

Verkfallsaðgerðirnar í dag eru þær fyrstu af sex sem boðaðar hafa verið vegna kjara­deilu 1.850 starfs­manna fé­lags­ins hjá Reykja­vík­ur­borg. Um eitt þúsund félagar í Eflingu starfa í skólum í Reykjavík og bitna aðgerðirnar á 63 leikskólum, mismikið þó, en nær til um 3.500 barna. 

„Hjá okkur hefur það þau áhrif að ég er að senda 43 börn heim, það verða ellefu eftir í skólanum,“ segir Sigríður. Einn af þremur deildarstjórum er í Eflingu og því verður einni deildinni alfarið lokað en óheim­ilt er að færa starfs­menn á lokaðri deild sem eru í öðrum stétt­ar­fé­lög­um yfir í störf á öðrum deild­um.

Tveir deildarstjórar, auk Sigríðar og aðstoðarskólastjóra, eru nú eftir í leikskólanum og hjálpast að við að annast börnin ellefu sem eftir eru. 

Starfsfólk leikskólans Árborgar sem eru félagsmenn í Eflingu lögðu niður …
Starfsfólk leikskólans Árborgar sem eru félagsmenn í Eflingu lögðu niður störf klukkan 12:30. Leið flestra lá í Iðnó þar sem boðað hefur verið til baráttufundar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enn meiri áhrif á fimmtudag 

Næsti samningafundur í deilunni er á morgun en ef samningar nást ekki á þeim fundi verður aftur verkfall á fimmtudag og þá nær það yfir allan daginn. Börnunum á deildunum tveimur sem hægt er að halda opnum hefur verið skipt niður í hópa og mun annar hópur því vera á leikskólanum á fimmtudag, komi til verkfalls. 

„Við erum búin að skipta börnunum á tveimur deildum niður í 11 barna hópa sem mega vera, en svo megum við ekki við neinu. Ef upp koma veikindi hjá þessum tveimur starfsmönnum á þessu tímabili þá þarf ég að loka,“ segir Sigríður. 

Starfsmenn eldhúsa í leikskólum borgarinnar leggja einnig niður störf en það hefur þó ekki áhrif á Árborg. „Reyndar erum við þannig sett að við kaupum matinn annars staðar frá þannig að það verður nóg að borða hér,“ segir Sigríður. 

Styður baráttu leikskólaliða heilshugar

Aðstæðurnar á Árborg eru sérstakar í dag að mati Sigríðar en hún styður kröfugerð Eflingar í kjaraviðræðum við Reykjavíkurborg.  

„Ég styð fyllilega að það sé tími kominn á að starfsfólk í leikskólum fái betri kjör. Það er ekki spurning. Þetta er fólkið sem heldur uppi dagvistunarmálum í Reykjavík í dag. Okkur fækkar, leikskólakennurum, og það er bara staðreyndin,“ segir hún.  

Sigríður segir það ekki boðlegt hversu lág laun leikskólaliða eru, ekki síst þeirra sem hafa starfað í leikskólaumhverfinu í áratugi. „Ég er að horfa á launaseðil hjá manneskju sem styttist í að fari á eftirlaun og hún er leikskólaliði og hún er með heildarlaun 360.000 og er að fá útborgað innan við 300.000 eftir alla sína starfsævi. Í rauninni er þetta ekki boðlegt. Ég styð baráttu þeirra heilshugar.“

Boðað hefur verið til baráttufundar í Iðnó sem er nýhafinn. Verkfallsaðgerðirnar ná yfir sex daga, sem fyrr segir, í um 95 klukkustundir alls, ýmist frá hádegi til miðnættis eða í heilan sólarhring. Náist ekki samningar fyrir 17. febrúar leggja félagsmenn niður störf sama dag og ótímabundið eftir það. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert