Vaka hf. hefur lýst yfir áhuga á að reisa nýjar höfuðstöðvar á Tungumelum í Mosfellsbæ. Þær yrðu steinsnar frá höfuðstöðvum Ístaks.
Samhliða flutningi Vöku úr Vogunum í Reykjavík hefur félagið komið fyrir bílflökum á athafnasvæði sínu við hlið Ístaks, að því er fram kemur í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, segir Vöku hafa keypt heilmikið land á Tungumelum á sínum tíma af Landsbankanum sem áður hafi verið í eigu Ístaks. Vaka geymi bílana á svæði sem bærinn samdi við Ístak á sínum tíma um að yrði tímabundið geymslusvæði. Jafnframt hafi Vaka óskað eftir því að aðalskipulagi á landinu í eigu félagsins á Tungumelum verði breytt í atvinnusvæði. Vaka vilji reisa byggingar í tengslum við sína starfsemi á svæðinu.