Hilmir Jóhannesson, mjólkurfræðingur, hagyrðingur og leikskáld, lést á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki fimmtudaginn 30. janúar, 83 ára að aldri.
Hilmir var fæddur á Húsavík 24. maí 1936. Foreldrar hans voru Ása Stefánsdóttir frá Skinnalóni á Melrakkasléttu og Jóhannes Ármannsson frá Hraunkoti í Aðaldal. Eftirlifandi eiginkona Hilmis er Hulda Jónsdóttir en þau gengu í hjónaband 27. desember árið 1957. Eignuðust þau þrjú börn, Guðrúnu, Jóhannes og Eirík.
Hilmir og Hulda bjuggu á Húsavík til ársins 1964 en fluttu þá í Borgarnes. Á Sauðárkróki hafa þau búið síðan 1971.
Hilmir lærði mjólkurfræði í Danmörku og starfaði sem slíkur á Húsavík, í Borgarnesi og á Sauðárkróki. Eftir að hann hætti sem mjólkurfræðingur var hann starfsmaður Sjúkrasamlags Sauðárkróks og bókavörður á sjúkrahúsinu en starfaði eftir það með Huldu við barnagæslu.
Hilmir sat í bæjarstjórn Sauðárkróks fyrir K-listann í tvö kjörtímabil, 1990-1994 og 1994-1998. Hann var einnig stjórnarformaður Sauðárkróksveitna í allmörg ár.
Hilmir var afkastamikill hagyrðingur og leikskáld og samdi mörg leikrit og revíur. Eitt af þekktustu leikritum hans er Sláturhúsið hraðar hendur, sem var fyrst sett upp á Borgarnesi árið 1968. Meðal annarra leikrita eru Gullskipið kemur, sem sýnt var af Leikfélagi Akureyrar 1974, og Tímamótaverk, sem Leikfélag Sauðárkróks setti upp 1991. Hann samdi einnig ógrynni af tækifærisvísum og dægurlagatextum, þar á meðal Ort í sandinn.
Hilmir málaði ófáar myndir, stórar og smáar og síðustu árin málaði hann litlar vatnslitamyndir af landslagi úr Skagafirði sem hann skrifaði ljóð inn á, tengd myndefninu. Hilmir var mikill veiðimaður og veiddi lax á stöng í ám víða um land. Þá átti hann báta í félagi við aðra á Sauðárkróki og naut þess að róa til fiskjar.