„Það gætir mjög mikillar óánægju með þetta,“ segir séra Jakob Rolland, kanslari kaþólsku kirkjunnar á Íslandi.
Breyting var gerð á lögum um skráningu einstaklinga um áramótin. Hefur breytingin það í för með sér að trúfélög geta ekki annast skráningu fólks í félögin eins og verið hefur. Nú er ætlast til þess að skráningin fari fram rafrænt með Íslykli eða rafrænum skilríkjum.
„Það er alltaf til fólk sem ekki er tölvuvætt og getur ekki notað tölvu eða snjallsíma. Eins hentar þetta illa útlendingum sem hingað koma og kunna ekki íslensku og kannski litla eða enga ensku. Þetta kemur sér mjög illa,“ segir Jakob í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag
Jakob er talsmaður samráðsvettvangs trúar- og lífsskoðunarfélaga á Íslandi. Innan þess vettvangs er 21 trúfélag sem nær yfir 90% allrar trúfélagsaðildar landsmanna að hans sögn.