Fyrirhugað verkfall félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg hefst á miðnætti í kvöld og stendur til miðnættis annað kvöld. Verkfallsaðgerðirnar munu skerða þjónustu leikskóla borgarinnar, velferðarþjónustu og sorphirðu.
Um 1.850 manns í Eflingu starfa hjá borginni á um 129 starfsstöðvum. Mest verða áhrif verkfallsaðgerða á skóla- og frístundasviði þar sem um eitt þúsund Eflingarstarfsmenn starfa, mikill meirihluti þeirra í leikskólum.
Gert er ráð fyrir að verkfallið hafi áhrif á um rúman helming leikskólabarna í borginni eða 3.500 börn. Þeim börnum sem fá vistun verður skipt upp í hópa, einn fyrir hádegi og annar eftir hádegi. Þá er fyrirséð að matarþjónusta í einhverjum grunnskólum borgarinnar raskast og þurfa nemendur þar að koma með nesti í skólann.
Í gær var fyrsti dagur verkfallsaðgerða og ljóst er að þær höfðu töluverð áhrif á atvinnulífið því foreldrar, ömmur og afar þurftu að sækja börn í leikskólana um hádegi. Þeir sem mbl.is ræddi við höfðu þó skilning á aðgerðunum og sögðust styðja þær.
Foreldrar/forráðamenn greiða ekki leikskólagjöld fyrir þá daga sem verkfall stendur yfir og ekki heldur fyrir máltíðir sem falla niður, að fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Velferðarsvið fékk undanþágur frá verkfallsaðgerðum fyrir starfsfólk Eflingar sem sinnir viðkvæmustu þjónustunni er snýr að umönnun fatlaðs fólks, barna, aldraðra á hjúkrunarheimilum og í heimahúsum, barna og fólks sem þarf á neyðarþjónustu að halda í gistiskýlum.
Hins vegar mun verkfallið hafa áhrif á um 1.650 notendur velferðarþjónustu. Þrif á heimilum fatlaðs fólks og aldraðra falla niður, sömuleiðis aðstoð við böðun. Ekki verður hægt að kaupa máltíðir í félagsmiðstöðvum og þá verður dagdvöl í Þorraseli lokuð meðan á verkfalli stendur.
Hjá Sorphirðunni frestast þjónusta sem og vetrarþjónusta eins og hálkuvarnir og snjóhreinsun.
Verkfallsaðgerðirnar ná yfir sex daga í um 95 klukkustundir alls, ýmist frá hádegi til miðnættis eða í heilan sólarhring. Náist ekki samningar fyrir 17. febrúar leggja félagsmenn niður störf sama dag og ótímabundið eftir það.
Fimmtudagur 6. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 00.01 og fram til klukkan 23.59.
Þriðjudagur 11. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 12.30 og fram til klukkan 23.59.
Miðvikudagur 12. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 00.01 og fram til klukkan 23:59.
Fimmtudagur 13. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 00.01 og fram til klukkan 23.59.
Mánudagur 17. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 00.01 og ótímabundið eftir það.