„Þetta er fyrsta skrefið okkar. Við þurftum að fá upplýsingar um stöðuna eins og hún er til þess að geta farið að vinna aðgerðaáætlanir um að draga úr losun,“ segir Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda. Kynnt hefur verið skýrsla um kolefnisspor íslenskrar nautgriparæktar sem Efla verkfræðistofa vann fyrir samtökin.
Losun vegna nautgriparæktar og mjólkurframleiðslu hér á landi nam 275 þúsund tonnum CO2-ígilda á árinu 2018, samkvæmt skýrslunni. Þrír þættir hafa mest áhrif. Helmingurinn er vegna losunar metans úr meltingarvegi nautgripa. 13% hennar eru vegna meðhöndlunar búfjáráburgðar og 12% vegna framleiðslu og flutnings tilbúins fóðurs. Rekja má alls um 70% af kolefnisspori greinarinnar til líffræðilegra ferla í gripunum, þegar notkun húsdýraáburðar er tekin með í reikninginn.
Heildarlosun frá dæmigerðu búi þar sem mjólkurframleiðsla er stunduð er um 578 tonn CO2-ígilda á ári. Samsvarar það 1 kg á hvern lítra mjólkur og rúmlega 18 kg á hvert kíló kjöts sem framleitt er á búinu. Heildarlosun frá dæmigerðu kjötframleiðslubúi nemur 187 tonnum af CO2-ígildum á ári sem svarar til 23,4 kg á hvert kíló kjöts.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Margrét að niðurstöðurnar séu í ágætu samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna, frekar þó í lægri kantinum.