Siglingasvið rannsóknanefndar samgönguslysa afgreiddi í vikunni lokaskýrslur vegna slysa um borð í þremur hvalaskoðunarbátum á Skjálfanda síðasta sumar. Nefndin ályktaði ekki í málunum, en vísaði til þess að hún hefði rannsakað fjölda sams konar slysa frá árinu 2011.
Vísað er til ellefu skýrslna á þessu tímabili „þar sem niðurstöður benda allar til þess sama þ.e.a.s. að of mikill siglingahraði miðað við aðstæður hafi valdið slysunum“, eins og segir í skýrslunni.
Umræddir RIB-bátar, Kjói, Amma Sigga og Amma Sigga II eru gerðir út frá Húsavík. Í öllum tilvikum kom högg á bátana og einn farþegi í hverjum bát slasaðist í baki. Tvær ferðanna voru farnar í maí í fyrra og sú þriðja í ágúst.
Í sérstakri ábendingu í lokaskýrslum um þessi þrjú mál er rifjað upp að RNSA gerði eftirfarandi tillögu í öryggisátt í ágúst 2017: „Í ljósi tíðra slysa um borð í RIB bátum, sem notaðir eru í atvinnuskyni, leggur nefndin til við samgöngu- og sveitastjórnarráðuneyti að settar verði reglur sem tryggi öryggi farþega. Í því sambandi verði m.a. athugað hvort fjaðrandi sæti geti verið einn liður í því.“
Síðan segir í sérstakri ábendingu siglingasviðs RNSA að í bréfi frá 16. apríl 2018 hafi ráðuneytið ekki talið fært að setja sérstakar reglur varðandi sæti þar sem bátarnir væru CE-merktir. Hinsvegar hafi verið ákveðið að útfærðar yrðu kröfur um að útgerðir RIB-báta framkvæmdu áhættumöt á mismunandi aðstæðum sem fæli í sér að við tilteknar aðstæður væri siglt hægar. „Þetta hefur ekki verið gert,“ segir í sérstakri ábendingu siglingasviðs RNSA.