Stefán Eiríksson Andersen, þrítugur hálfíslenskur karlmaður, lést í fallhlífarstökki í Si Racha-héraði í suðausturhluta Taílands síðasta laugardag.
Frá þessu hefur verið greint í erlendum miðlum, meðal annars á vef Sjællandske Nyheder, en Stefán og fjölskylda hans eru frá bænum Kalundborg á Sjálandi.
Stefán var meðvitundarlaus er hann fannst í nágrenni flugvallarins, þaðan sem hann og stökkfélagar hans lögðu upp í flugið um hádegisbil að staðartíma. Síðar var hann úrskurðaður látinn á spítala.
Á vef Sjællandske Nyheder kemur fram að Stefán hafi verið þekktur í félagsskap danskra fallhlífarstökkvara, en haft er eftir formanni félagsins, Nicolaj Larsen, að hann hafi ekki verið virkur félagi í samtökunum undanfarin ár.
Stefán kallaði sig Stefán „Íslending“ Anderson á Facebook. Í frétt Sjællandske Nyheder kemur fram að honum hafi verið færðar hinstu kveðjur á samfélagsmiðlum frá vinum úr samfélagi danskra fallhlífarstökkvara.
„Sjáumst í skýjunum,“ skrifar einn þeirra.
Uppfært kl. 16:34
Aðstandandi Stefáns hafði samband við fréttastofu og benti á að fallhlífin hefði opnast með eðlilegum hætti en að Stefán hefði slasast illa þegar hann lenti. Fram hefur komið í umfjöllun erlendra fjölmiðla að fallhlífin hefði aðeins opnast að hluta. Leiðréttist þetta hér með.