Jóhann Ólafsson
„Það eru bara áframhaldandi fundahöld,“ segir Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar, um samningaviðræður við Eflingu stéttarfélag.
Fundað var hjá ríkissáttasemjara í morgun og lauk fundinum án niðurstöðu. Enn er þó unnið í húsnæði ríkissáttasemjara en Harpa segir að unnið sé að styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki.
Áður hafði hún sagt að það væri einn af útgangspunktum Eflingar að sú vinna yrði að klárast áður en skrifað yrði undir kjarasamning.
Félagsmenn Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg hefja sitt þriðja verkfall klukkan 12:30 á þriðjudag ef ekki verður búið að semja fyrir þann tíma. Það verkfall mun standa yfir í tvo og hálfan sólarhring.
Harpa segir að á meðan deiluaðilar tali saman séu líkur á að það takist að semja. Hún vill þó ekki svara því beint hvort líkurnar séu meiri í dag en í byrjun vikunnar.
„Þetta er snúið en við erum enn að tala saman.“