Hjónin Jófríður Benediktsdóttir, kjóla- og klæðskerameistari, og Hafliði Aðalsteinsson, skipasmíðameistari, voru útnefnd sem heiðursiðnaðarmenn ársins 2020 á árlegri nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík (IMFR) í dag.
Á hátíðinni afhenti forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, verðlaun til 23 iðnnema sem heiðraðir voru fyrir afburðaárangur á sveinsprófi.
„Iðnnám er ekki bara gagnlegt og skemmtilegt heldur einnig fjölbreytt eins og sjá má á þessum hópi iðnnema úr 14 iðngreinum og sjö skólum víðs vegar um landið,“ segir Halldór Þ. Haraldsson, formaður IMFR, í fréttatilkynningu.
„Þetta er í fjórtánda sinn sem við stöndum fyrir Nýsveinahátíð, en tilgangur hennar er að veita ungum iðnaðarmönnum viðurkenningu fyrir framúrskarandi fagmennsku og efla virðingu fyrir iðnnámi. Iðnmenntun er verðmæt og eftirsótt menntun enda er er hún ein af grunnstoðum afkastamikils atvinnulífs og frábær valkostur fyrir ungt fólk í dag. Í ár er auk þess gaman að segja frá því að 11 af 23 þeirra sem fá viðurkenningu eru konur og hefur hlutfallið aldrei verið hærra.“ „Íslenskt samfélag þarf á iðnnemum að halda og því erum við að fagna í dag. Það er mikilvægt að hver og einn finni nám sem er áhugavert og spennandi. Það gleður mig því mikið að sjá nemendum sem innritast á ákveðnar verk- og starfsnámsbrautir fjölga. Ég óska heiðursiðnaðarmönnum innilega til hamingju með nafnbótina. Þau eru svo sannarlega vel að því komin.“ sagði Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra í tilefni af hátíðinni, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.
Hjónin Jófríður Benediktsdóttir, kjóla- og klæðskerameistari og BA í listfræði með þjóðfræði sem aukagrein, og Hafliði Aðalsteinsson, skipasmíðameistari, voru valin heiðursiðnaðarmenn ársins 2020 fyrir einstakt framlag til íslenskrar þjóð- og iðnmenningar. Halldór segir þau sérlega vandvirkt fagfólk sem hafa verið iðnverki til sóma: „Að auki hafa þau bæði, hvort á sinn hátt, haldið uppi og miðlað áfram iðnþekkingu sem skipar mikilvægan sess í menningarsögu okkar Íslendinga. Jófríður hefur um árabil haldið uppi heiðri íslenska þjóðbúningsins og kennt námskeið þjóðbúningagerð og Hafliði er bátasmiður langt aftur í ættir og hefur miðlað þeirri þekkingu og sögu áfram. Hann endurgerði til að mynda merkan súðbyrðing sem er eins og bátur sem langafi hans smíðaði árið 1890, en sá bátur hefur verið tilnefndur til heimsminjaskrár UNESCO.“