Mánudaginn 24. október 2016 ók Guðmundur Andri Ástráðsson bifreið undir áhrifum kókaíns austur Hlíðarhjalla í Kópavogi og inn á gatnamót Hlíðarhjalla og Dalvegar og í veg fyrir bifreið. Fór þá af stað atburðarás sem leiddi til málflutnings fyrir yfirrétti Mannréttindadómstóls Evrópu á miðvikudaginn var.
Fram kom í dómi Héraðsdóms Reykjaness í mars 2017 að Guðmundur Andri hefði skýlaust játað brotið en kókaín mældist í blóði. Var hann dæmdur í 17 mánaða fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt.
Hafði hann þá margítrekað verið dæmdur fyrir að aka sviptur ökuréttindum undir áhrifum áfengis- og eða áhrifum ávana- og fíkniefna. Var Sveinn Andri Sveinsson meðal réttargæslumanna. Að auki fékk hann dóm í nóvember 2018 fyrir ítrekuð umferðarlagabrot, sviptur ökurétti, m.a. undir áhrifum fíkniefna.
Ári síðar, í nóvember 2019, fékk hann svo dóm fyrir akstur undir áhrifum kókaíns, sviptur ökurétti, og brot á vopnalögum. Sagði í dómnum að hann hefði 14 sinnum fengið dóm fyrir refsiverða háttsemi en sakaferillinn nær aftur til ársins 2005 er hann var tvítugur. Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson var verjandi hans í báðum málum sem eru frá árinu 2017, að því er fram kemur í ítarlegri umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.