Ný kennsluaðstaða Skólahljómsveitar Kópavogs vígð

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs tók lagið með Skólahljómsveit Kópavogs.
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs tók lagið með Skólahljómsveit Kópavogs. Ljósmynd/Aðsend

Ný kennsluaðstaða Skólahljómsveitar Kópavogs var vígð við hátíðlega athöfn í gær. Nýtt húsnæði hljómsveitarinnar er nýbyggð álma við Álfhólsskóla Digranesi, með kennslustofum, geymslurýmum og skrifstofu skólans ásamt æfingasal fyrir hljómsveitarstarfið. Þetta er fyrsta sérhannaða húsnæði fyrir skólahljómsveit sem tekið er í notkun á landinu.

„Með húsnæðinu rætist langþráður draumur um varanlegt og sérhannað húsnæði fyrir hljómsveitina sem hefur starfað í Kópavogi í rúmlega hálfa öld, vonandi verður byggingin lyftistöng fyrir það góða starf sem Skólahljómsveit Kópavogs er þekkt fyrir,“ sagði Össur Geirsson, skólastjóri Skólahljómsveitar Kópavogs, við tækifærið að því er kemur fram í tilkynningu á vef Kópavogs.

Skólahljómsveit Kópavogs hefur verið starfrækt frá árinu 1967 og því ríflega hálfrar aldar gömul. Fjöldi nemenda frá upphafi skiptir þúsundum og margir tónlistarmenn hafa stigið sín fyrstu skref í hljómsveitinni. Í dag eru um 200 nemendur í hljómsveitinni og 16 kennarar, flestir í hlutastarfi.

„Skólahljómsveit Kópavogs hefur verið órjúfanlegur hluti menningarlífs í Kópavogi í áratugi og hljómsveitin mikilvægur hluti í tónlistaruppeldi barna í bænum,“ sagði Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs við vígsluna.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs á miðri mynd, Össur Geirsson, …
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs á miðri mynd, Össur Geirsson, skólastjóri Skólahljómsveitar Kópavogs, til vinstri og Áslaug Eiríksdóttir, formaður foreldrafélags hljómsveitarinnar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert