Tvö þrjóskufull kvíðabúnt

Jónas Margeir Ingólfsson og Birkir Blær Ingólfsson skrifuðu handrit að …
Jónas Margeir Ingólfsson og Birkir Blær Ingólfsson skrifuðu handrit að Ráðherranum og Thin Ice, sem frumsýnt verður 16. febrúar. mbl.is/Ásdís

Perluvinirnir Birkir Blær Ingólfsson og Jónas Margeir Ingólfsson hafa vaðið eld og brennistein; grátið yfir lögfræðibókum, túrað Grænland með hljóðfæri í farteskinu og unnið saman nótt og dag að handriti að tveimur dramatískum nýjum sjónvarpsseríum, Thin Ice og Ráðherranum. Sú fyrri fer í loftið 16. febrúar og von er á þeirri síðari með haustinu. 

Slefað við fyrstu kynni

Það er ekki úr vegi að spyrja þá hvar og hvenær leiðir þeirra lágu fyrst saman.
„Ég man alltaf eftir því þegar við hittumst fyrst. Jónas var svaka tappi í MH. Ég var bara busi. Dag einn sá ég hann í 10-11 þar sem ég var að fá mér jógúrt á einhvers konar jógúrt-bar. Ég man að ég hugsaði, „þarna kemur þessi tappi, á ég að heilsa eða er það vandræðalegt?“ Ég var greinilega búinn að vera með lokaðan munninn dálítið lengi því þegar hann gekk fram hjá og kinkaði kolli sagði ég hæ. En þá var munnurinn á mér fullur af slefi þannig að ég slefaði ofan í jógúrtið. Svoleiðis voru okkar fyrstu kynni,“ segir Birkir. Við Jónas skellum upp úr.

Birkir og Jónas hafa verið perluvinir frá því í menntó.
Birkir og Jónas hafa verið perluvinir frá því í menntó. mbl.is/Ásdís

Stuttu eftir slefatburðinn fóru þeir félagar að verja miklum tíma saman í ræðuliði MH.
„Ræðukeppni er ótrúlega heimskulegt fyrirbrigði; þarna eru menntaskólakrakkar að rífast um eitthvað sem þeir ákveða að rífast um. En maður lærir mjög mikið af þessu; gagnrýna hugsum og að vinna saman,“ segir Jónas.
„Já, maður þarf að hugsa eitthvað gáfulegt, skrifa það svo niður og loks æfa sig í að flytja það,“ segir Birkir.
„Það var þarna fyrst sem við fórum að skrifa saman.“

Grét yfir lögfræðibókum

Nú eru þið greinilega mjög skapandi menn. Af hverju fóru þið báðir í lögfræði?
Jónas hugsar sig um.
„Ég vildi að ég ætti eitthvert gáfulegt svar við þessu. Árið var 2007 og það voru allir að fara í lögfræði. Ég man að eftir fyrsta tímann í lagadeild hugsaði ég; „næstu fimm ár verða mjög leiðinleg“,“ segir Jónas.

„Ég fór í lögfræði 2009. Árið 2007 fóru allir í lögfræði af því að lögfræðingar höfðu það svo gott. Árið 2009 fóru allir í lögfræði af því enginn hafði það gott nema lögfræðingar. Það var metár í aðsókn. Um 450 manns hófu nám það árið. Eftir á að hyggja er ég þakklátur fyrir að hafa böðlast í gegnum þetta. Ég man að í fyrstu vikunni fór ég að gráta yfir bókunum, mér fannst þetta það leiðinlegt,“ segir Birkir. 

Láku tárin niður á bókina?

„Já, það gerðist! Samt kláraði ég þrjú ár af þessu námi. Ég skil ekki alveg hvers vegna, ætli það hafi ekki verið einhver yfirdrifin þrjóska? Og sennilega kom hún einmitt að góðum notum í þessum handritaverkefnum,“ segir Birkir.
„Við vorum þjáningarbræður á þessum árum, lærðum þrjósku og dugnað. Í dag erum við eiginlega tvö lögfræðimenntuð þrjóskufull kvíðabúnt og það hefur reynst ágætlega í þessum verkefnum: að ofhugsa hlutina og hætta ekki fyrr en þeir smella,“ segir Jónas.

Forsætisráðherra með geðhvörf

Það var svo í samvinnu við vinkonu þeirra, fjölmiðlakonuna Björgu Magnúsdóttur, að þeir hófu skrif á stjórnmálaseríu.
„Þá kviknaði sú hugmynd hjá okkur að gera dramaseríu um forsætisráðherra með geðhvörf. Þetta var á sama tíma og ég var að skrifa meistararitgerð mína í lögfræði. Ég hef aldrei skrifað neitt leiðinlegra en þessar 120 blaðsíður um lögsögumörk ríkja á internetinu,“ segir Jónas og hlær.

„Við vissum ekkert hvað yrði úr þessu, þetta var bara hugmynd, en það opnaðist þarna nýr heimur og ég uppgötvaði að það gæti verið gaman að skrifa. Þá varð ekki aftur snúið,“ segir Jónas.
„Við fórum svo með hugmyndina til Sagafilm sem tók vel í þetta. Síðan eru liðin mörg ár og Ráðherrann er að fara í loftið núna í haust,“ segir hann.

Eins og litlir strákar í Disney

Eftir að skrifum á Ráðherranum lauk voru Jónas og Birkir beðnir um að stíga inn í handritsgerð að hinni sænsk-íslensku seríu sem kemur fyrir sjónir íslenskra áhorfenda um miðjan febrúar. 

Sænska stjarnan Lena Endre leikur í Thin Ice sem á …
Sænska stjarnan Lena Endre leikur í Thin Ice sem á að gerast á Grænlandi. Hér er hún við tökur en flestar fóru þær fram í Stykkishólmi. Serían er frumsýnd á Íslandi 16. febrúar. Ljósmynd/Guðjón Jónsson

„Þetta verkefni er búið að vera í gangi í sex, sjö ár en við höfum verið með í þrjú ár. Það byrjaði á því að hin þekkta sænska stjarna, Lena Endre, vildi vinna með framleiðandanum Sören Stærmose hjá fyrirtæki sem heitir Yellowbird. Þau vildu fjalla um hlýnun jarðar í seríu. Svo tóku nokkrir höfundar snúning á hugmyndinni en gáfust upp og að lokum endaði handritið inni hjá Jóhanni Ævari Grímssyni hjá Sagafilm, sem hringir þá í okkur,“ segir Jónas. 

Þeir útskýra að ásamt Jóhanni Ævari hafi þeir sest niður og byrjað svo gott sem frá grunni á sögunni.

„Það var rosa skemmtilegt. Við vorum líka „star-struck“. Þarna voru sænskar stórstjörnur að koma að heilsa okkur og við fórum bara í kleinu. Þá vorum við búnir að reyna að skrifa handrit í fimm, sex ár og aldrei komið á sett! Við vorum eins og litlir strákar í Disney-landi og allt í einu vildi Mikki Mús vera vinur okkar!“ segir Jónas.

Oft boðin hjónasvítan

Nú eru þið báðir Ingólfssynir, halda ekki sumir að þið séuð bræður?

„Jú, allir nema þeir sem halda að við séum hjón,“ segir Birkir.
„Já, það hefur gerst ítrekað á fundum erlendis að þegar sést sama eftirnafn þá er pöntuð hjónasvítan fyrir okkur. Og það hefur stundum verið hvíslað að okkur þegar við erum að innrita okkur á hótel, „sko, þetta er alveg frjálslynt hótel, þið megið vera saman í herbergi“, segir Jónas.

„Þá segi ég alltaf, já, takk fyrir. En Jónas vill það ekki. Ég er nefnilega myrkfælinn. Jónas hefur ekki alveg skilning á því,“ segir Birkir og Jónas hlær dátt.

„Það var sérstaklega erfitt á Grænlandi því þegar dvölin þar var hálfnuð komst ég að því að við værum í draugahúsinu í bænum. Og eftir það svaf ég eiginlega ekkert. Draugar eru eitt, en grænlenskir draugar eru ógnvekjandi á allt öðru kalíberi.“

Thin Ice er umhverfisþriller sem gerist á Grænlandi.
Thin Ice er umhverfisþriller sem gerist á Grænlandi. Ljósmynd/Guðjón Jónsson


Ítarlegt viðtal við Birki og Jónas er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 



Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka