Hætta getur skapast á snjóflóðum

Djúp lægð nálgast landið úr norðaustri og henni fylgir hríð á Norðurlandi og Vestfjörðum í nótt og á morgun. Hætta getur skapast á snjóflóðum í veðrinu. Gefnar hafa verið út gular viðvaranir á norðurhluta landsins.

„Hláka í síðustu viku bleytti vel í snjó víðast hvar á landinu og síðan hefur hann frosið aftur. Gamli snjórinn er því talinn nokkuð stöðugur víðast hvar nema helst efst í fjöllum. Djúp lægð nálgast landið úr NA. Henni mun fylgja nokkuð mikil snjókoma á Vestfjörðum og Norðurlandi á sunnudagskvöld fram á mánudagskvöld og hætta getur skapast á snjóflóðum í veðrinu. Víða annars staðar verður einhver éljagangur. Þar sem nýsnævi safnast ofan á gamla snjóinn þarf að gera ráð fyrir því að það verði óstöðugt,“ segir á vef Veðurstofu Íslands. 

Vaxandi norðvestlæg átt með snjókomu fyrir norðan seint í kvöld og í nótt, en hægari og þurrt syðra. Norðan og norðvestan 13-23 V-til, en mun hægari A-lands. Snjókoma, jafnvel talsverð á N-landi og N-til á Vestfjörðum, úrkomulítið S-lands. Frost 0 til 7 stig, en heldur hlýnandi á morgun. Norðaustlægari annað kvöld og snjókoma eða él N-til, en léttir til syðra, segir í spá fyrir nóttina og morgundaginn.

Á Vestfjörðum tekur gul viðvörun gildi á miðnætti og gildir til sex á þriðjudagsmorgun. „Norðanhvassviðri eða -stormur (15-23 m/s) með snjókomu eða skafrenningi og slæmu skyggni. Versnandi akstursskilyrði og ferðalangar hvattir til að sýna varkárni.“

Á Norðurlandi eystra er gul viðvörun í gildi frá því klukkan 5 í fyrramálið og gildir hún til klukkan 15 síðdegis. „Norðanstrekkingur eða allhvass vindur (13-18 m/s) með snjókomu eða skafrenningi og slæmu skyggni, einkum á Eyjafjarðarsvæðinu. Versnandi akstursskilyrði og ferðalangar hvattir til að sýna varkárni.“

Við Breiðafjörð er gul viðvörun frá því átta í fyrramálið og gildir hún til klukkan 3 aðfaranótt þriðjudags. „Norðanhvassviðri eða -stormur (15-23 m/s) með snjókomu eða skafrenningi og slæmu skyggni. Versnandi akstursskilyrði og ferðalangar hvattir til að sýna varkárni.“

Á Ströndum og Norðurlandi vestra er einnig gul viðvörun frá klukkan 6 í fyrramálið þangað til 3 aðfaranótt þriðjudags. „Norðanhvassviðri (13-20 m/s) með snjókomu eða skafrenningi og slæmu skyggni, einkum á Ströndum. Versnandi akstursskilyrði og ferðalangar hvattir til að sýna varkárni.“

Vetrarfærð er að einhverju marki í öllum landshlutum, nokkur hálka eða jafnvel snjóþekja en ekki fyrirstaða á helstu vegum, segir í Twitter-færslu frá Vegagerðinni. „Von er á vonskuveðri norðanlands í nótt svo endilega fylgist með veðurspá fyrir næsta sólarhring, #færðin.“ Frá því seint í kvöld, eftir kl. 22 og í nótt, er útlit er fyrir hríðarveður norðanlands og á Vestfjörðum. Strekkingsvindur og fýkur í skafla. Líkur eru á ófærð á vegum í fyrramálið, einkum í Skagafirði, Eyjafirði og austur með ströndinni, #færðin.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert