Leyndarmál samrýndra systra

Glæpasagnahöfundurinn Yrsa Sigurðardóttir og systir hennar, barnalæknirinn Ýr, segjast báðar …
Glæpasagnahöfundurinn Yrsa Sigurðardóttir og systir hennar, barnalæknirinn Ýr, segjast báðar eiga bestu systur sem nokkur getur hugsað sér. Lesendur fá að vita ýmislegt um systurnar en þær segja frá hvor annarri. mbl.is/Ásdís

Systurnar Ýr og Yrsa Sigurðardætur fetuðu ólíkar brautir í lífinu; Yrsa er að góðu kunn fyrir glæpasögur sínar og Ýr er barnalæknir og á átta börn. Morgunblaðið bað þær að segja hvor frá annarri og rifja upp gamlar minningar.

Yrsa og Ýr Sigurðardætur hafa alltaf verið góðar vinkonur. Báðar …
Yrsa og Ýr Sigurðardætur hafa alltaf verið góðar vinkonur. Báðar hafa þær húmorinn í lagi. Ljósmynd/Aðsend

„Barnið talar viðstöðulaust“

Hvenær manstu fyrst eftir Ýri?

„Ég er það lítil þegar hún fæðist að hún er í öllum mínum minningum. Við vorum alltaf góðar systur, miklar vinkonur. Ég man að þegar hún var lítil talaði hún út í eitt. Hún var eitt sinn lögð inn á barnadeild þegar hún var fimm ára og það stendur í læknaskýrslunum: „Barnið talar viðstöðulaust.“ Hún var ekkert leiðinleg, en stundum þurfti maður að komast að,“ segir Yrsa en segir Ýri þó aldrei hafa tekið alla athyglina.

Þær systur brölluðu ýmislegt saman að sögn Yrsu.

„Ég man þegar við vorum litlar í Texas, hún kannski sjö og ég tíu, að við komumst í læknisfræðikennslubók hjá pabba. Í bókinni var samansafn af myndum af fólki með hryllilega sjúkdóma. Við höfðum aldrei séð annað eins. Á blaðsíðu 1.024 var mynd af stúlku sem vantaði á hálfa kinnina þannig að skein í tennur í gegn. Þetta var hræðilegasta mynd sem við höfðum séð og við vorum mjög meðvitaðar um það þegar við nálguðumst þessa blaðsíðu. Í bókinni mátti sjá fólk með kýli, æxli, fílaveiki og fleira. Það fór illa fyrir öllum í þessari bók. Þarna uppgötvuðum við hversu heillandi eitthvað hræðilegt gæti verið þegar maður er sjálfur í öryggi. En svo komst pabbi að þessu og við sáum bókina aldrei meir. Ég held að þetta sé ástæðan fyrir því að ég er glæpa- og hryllingshöfundur en hún læknir. Þessi bók var vendipunktur í okkar lífi,“ segir hún og brosir.

Hefði þig grunað að hún myndi eignast átta börn?

„Nei, það hefði mig ekki grunað, en ég hefði svo sem getað sagt mér það sjálf. Ef einhver myndi fara að eignast átta börn, þá væri það hún. Hún fór létt með það. Hún er barngóð, góður uppalandi og sinnir þeim vel. Hún slakar aldrei á, er alltaf að. Hún hefur þurft að vera með tvær ef ekki þrjár þvottavélar en ég hef aldrei heyrt hana kvarta, aldrei nokkurn tímann. Það mætti halda að þetta væri ekkert mál, eða að hún væri með tíu þjóna. En kannski er það þannig að þau eldri hafa hjálpað til við að sinna þeim yngri. En samt. Börnin hennar eru öll mjög náin henni. Hún kann þetta, algjörlega.“

Er létt ofvirkni í henni?

„Já, já, ekkert létt! Það orð var auðvitað ekki til í gamla daga, en hún er á yfirhleðslu, en á mjög jákvæðan hátt. Hún hefur nýtt sér það vel.“

„Hefur misst af þrjátíu flugvélum“

 „Hún var alltaf góð við mig; hún er bara góð við alla. Ég man eftir henni fyrst þegar við bjuggum í Texas í Ameríku, en við fluttum þangað þegar ég var fimm ára. Ég man að mér fannst allt sem hún gerði, borðaði, klæddi sig í æði. Ég vildi alltaf vera með og hef örugglega verið rosalega pirrandi. Ég held hún hafi yfirleitt leyft mér að vera með sér, alla vega man ég ekki eftir öðru,“ segir Ýr.

„Yrsa hefur mikinn húmor. Þegar ég fór í sérnámið mitt þurfti ég að ráða au-pair. Í þá daga setti maður auglýsingu í Morgunblaðið og fólk átti að skila þangað inn umsóknum sem maður svo sótti. Ég var erlendis að vinna en átti gamalt faxtæki. Ég bað Nonna, manninn minn, að sækja umsóknirnar og faxa þær til mín. Svo heyri ég í honum og hann spyr mig hvort hann ætti að faxa allar umsókninar, honum fannst sumar varla koma til greina. En ég vildi sjá þær allar og bað hann að gera það. Svo horfði ég á faxtækið og það kom bara heil rúlla þar út! Ég byrja að lesa og sé að þarna eru margar blaðsíður frá Fangelsismálastofnun. Þar stóð að þeir væru að koma fyrrverandi föngum í vinnu og væru að sækja um öll störf sem auglýst væru í Morgunblaðinu, með tillögum um hvaða fangar myndu henta best í vinnuna. Ég fattaði þetta ekki strax, en þarna var auðvitað Yrsa að verki. Þetta var brjálæðislega fyndið. Hún skrifaði barnabók um þetta seinna; Barnapíubófann.“

Er hún með einhverja galla?

  „Hún er hræðileg að nota síma. Hann er annaðhvort bilaður eða maður nær engu sambandi. Hún er ekki með snjallsíma, heldur einhvern gamlan draslsíma. Svo er bara grín að ferðast með henni. Yrsa hefur misst af flugvélum svona þrjátíu sinnum á lífsleiðinni. Og það kemur henni alltaf jafn mikið á óvart. Ég hef reynt að segja henni að vélin fari bara á ákveðnum tíma. Það hefur verið frekar fyndið. Hún kann ekki beint á klukku. Svo er hún versti bílstjóri í heimi; ég er ekki viss um að hún myndi ná bílprófi ef hún tæki það í dag. Enda keyrir hún aldrei heldur lætur keyra sig allt,“ segir hún.  

„Hún er engum lík. Hún er mjög slök og aldrei að æsa sig yfir hlutunum. Annars er ekki hægt að segja neitt slæmt um hana; ég held að enginn gæti það. Ég gæti ekki verið heppnari með systur.“

Ítarleg viðtöl eru við systurnar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert