Markéta Irglová hefur búið hér á landi síðan árið 2012 og gefur blaðamanni fullt leyfi til að kalla sig Íslending þrátt fyrir að ríkisborgararétturinn sé ekki í höfn.
Eftir að hafa búið hér á landi í átta ár talar tónlistarkonan Markéta Irglová lýtalausa íslensku og hefur sótt um ríkisborgararétt. Hún þekkir ágætlega hvaða tilfinningar bærast með Hildi Guðnadóttur því hún fékk sjálf Óskarsverðlaun árið 2007 fyrir lagið „Falling Slowly“ sem hljómaði í myndinni Once en í henni lék hún líka annað aðalhlutverkið.
Eftir að hafa komið hingað í stutta heimsókn á tónleikaferðalagi með hljómsveitinni The Swell Season stökk Markéta á tækifærið til að koma hingað og taka upp í hljóðveri árið 2012. Þá kynntist hún manninum sínum Sturlu Míó Þórissyni og allar götur síðan hefur hún búið hér á landi en þau hjónin eiga þrjú börn saman, og reyndar hund líka.
Ég fékk Markétu til að rifja upp með mér hvernig það er að stíga upp á sviðið í Hollywood til að taka á móti sjálfum Óskari. Það gerði hún með glöðu geði og lék meira að segja á píanóið líka. Hún segir orkuna í salnum vera engu líka þar sem flestir í salnum séu að upplifa eina af stærstu stundum lífs síns.
Það var sjálfur John Travolta sem afhenti Markétu verðlaunin sem hún deilir með tónlistarmanninum Glen Hansard. Þegar hann var búinn að þakka fyrir byrjaði tónlistin í salnum að hækka einmitt á sama tíma og Markéta ætlaði að þakka fyrir. Úr varð hin vandræðalegasta stund sem olli því að Jon Stewart, sem kynnti hátíðina, kallaði hana upp síðar við afhendinguna svo hún gæti klárað sitt mál en atvikið má sjá í spilaranum hér að neðan.
Markéta Irglová hefur búið hér á landi síðan árið 2012 og gefur blaðamanni fullt leyfi til að kalla sig Íslending þrátt fyrir að ríkisborgararétturinn sé ekki í höfn.