Lokið við útfærslu á styttingu vaktavinnuviku

Fundað verður í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag.
Fundað verður í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um helgina lauk vinnu við útfærslu á styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki hjá Reykjavíkurborg. Mikilvægt var að sú vinna kláraðist sem fyrst, enda einn af útgangspunktum Eflingar að lokið yrði við þá vinnu áður en hægt væri að skrifa undir nýjan kjarasamning.

Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar, staðfestir í samtali við mbl.is að unnið hafi verið að útfærslunni alla helgina og tekist að ljúka við hana.

„Það er ákveðið skref í því að ná lausn við Eflingu sem og aðra viðsemjendur. Það er mjög mikil breyting sem verið er að teikna þarna upp. Hjá Reykjavíkurborg er um fjórðungur starfsmanna í vaktavinnu. Þetta skiptir því miklu máli,“ segir Harpa.

„Það er mjög ánægjulegt að þetta sé komið á þann stað að nú er bara verið að kynna þetta í baklandinu. Það er meiningin að skrifa undir það á morgun,“ bætir hún við.

Harpa segir miklar breytingar fólgnar í styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki
Harpa segir miklar breytingar fólgnar í styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki Ljósmynd/Aðsend

Fundað verður í dag í kjaradeilu félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg í húsakynnum ríkissáttasemjara, en fundurinn hefst klukkan tvö. Harpa segist mæta jákvæð á fundinn í ljósi afraksturs helgarinnar.

Aðspurð hvort það að þessari vinnu sé lokið hafi einhver áhrif á viðræður á fundinum í dag, telur hún að allt hafi áhrif. „Þannig fer ég inn í viðræður, að við séum að ræða allt í heild sinni. Það er það sem skiptir máli, heildarsamhengið.

Leysist deilan ekki á fundinum í dag halda félagsmenn Eflingar sem starfa hjá borginni áfram verkfallsaðgerðum á morgun, en vinna verður lögð niður klukkan 12.30 og fram til klukkan 23.59.

Dag­skrá fyr­ir­hugaðra vinnu­stöðvana má sjá hér að neðan:

Þriðju­dag­ur 11. fe­brú­ar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 12.30 og fram til klukk­an 23.59.

Miðviku­dag­ur 12. fe­brú­ar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 00.01 og fram til klukk­an 23.59.

Fimmtu­dag­ur 13. fe­brú­ar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 00.01 og fram til klukk­an 23.59.

Mánu­dag­ur 17. fe­brú­ar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 00.01 og ótíma­bundið eft­ir það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert