Leiðin milli Súðavíkur og Ísafjarðar er lokuð að sögn lögreglunnar á Vestfjörðum.
Fram kemur í tilkynningu, að lögreglan og Vegagerðin, í samráði við ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands, hafi klukkan 8 í morgun ákveðið að loka veginum um Súðavíkur- og Kirkjubólshlíð.
„Enn hefur snjóað töluvert og skyggni lélegt. Snjóflóð hafa verið að falla á Súðavíkurhlíð og ekki er útlit til þess að óhætt verði að opna veginn á ný fyrr en í fyrramálið. En veðurspáin gerir ráð fyrir betra veðri þegar líður á nóttina og í fyrramálið.
Vegfarendum er bent á að leita sér upplýsinga um veður og færð á þessum vegi sem og öðrum í umdæminu á heimasíðu Vegagerðarinnar og í upplýsingasímann 1777,“ segir í tilkynningu.