Sjö ára dómar í stóru fíkniefnamáli

Mennirnir voru handteknir við komuna til Seyðisfjarðar með Norrænu í …
Mennirnir voru handteknir við komuna til Seyðisfjarðar með Norrænu í ágúst í fyrra.

Tveir karlmenn voru í dag dæmdir í sjö ára fangelsi hvor fyrir þátt sinn í innflutningi á 37,8 kílóum af amfetamíni og tæplega 5 kílóum af kókaíni. Voru mennirnir handteknir í ágúst í fyrra við komuna til landsins með Norrænu, en fíkniefnahundar gáfu merki um fíkniefni í Austin Mini Cooper bifreið sem þeir komu á. Hafði fíkniefnunum verið komið fyrir í læstu hólfi í bifreiðinni.

Annar maðurinn, Heinz Bernhard Sommer, er Þjóðverji en hinn, Victori-Sorin Epifanov, er Rúmeni. Voru þeir báðir búsettir í Þýskalandi, en sá þýski sagðist vera ellilífeyrisþegi og fyrrverandi bankastarfsmaður. Hann hefði verið talsvert skuldugur vegna skatta, en hann hafði meðal annars setið inni vegna skattalagabrota í heimalandinu.

Rúmeninn var þrettán árum yngri og hafði búið í nokkur ár í Þýskalandi. Sögðust þeir vera kunningjar sem þekktust í gegnum þriðja mann sem hefði beðið þá um að fara til Íslands og skipulagt ferðina. Sögðu þeir þann mann reka byggingaverktakafyrirtæki í Þýskalandi, en ekki tókst að hafa uppi á honum. Sagðist Epifanov hafa unnið sem verktaki fyrir þennan þriðja mann.

Átti Epifanov að sækja peninga til Íslands og fara með aftur til meginlands Evrópu, en Sommer sagðist hafa átt að vera ökumaður hans. Áttu þeir báðir að fá greitt fyrir ferðina og uppihald.

Báðir mennirnir neituðu því að hafa vitað af fíkniefnunum, en í dóminum kemur fram að þeim hafi verið komið fyrir í sérútbúnu og lokuðu hólfi undir farangursgeymslu í bifreiðinni. Var hólfið læst með raflokum sem voru tengdar við stýrisbúnað með þráðlausu aðgengi eða fjarstýringarbúnaði. Þá var einnig staðsetningarbúnaður með hollensku símkorti falinn í mælaborði bifreiðarinnar, sem skráð var á Epifanov í Þýskalandi.

Mennirnir höfðu áður komið til Íslands í sama bíl árið 2018 auk þess að ferðast saman til Óslóar í Noregi og Basel í Sviss auk flugferðar til Malaga á Spáni.

Sem fyrr segir neituðu mennirnir að hafa vitað af efnunum. Þá fundust engin fingraför á umbúðum fíkniefnanna sem tengdust þeim. Í dóminum kemur á móti fram að miðað við margar langferðir saman í bílnum sé ósannfærandi að þeir hafi ekki gert sér grein fyrir að ekkert hólf væri fyrir varadekk í bifreiðinni. Einnig að þeir hafi ekki gert sér neina grein fyrir breytingum á skotti bifreiðarinnar. Þá segir að framburður þeirra hafi verið nokkuð á reiki, ósamrýmanlegur og ósannfærandi á köflum.

Þá er vísað til þess að Sommer hafi á tíma sagst hafa verið með upplýsingar um að þriðji maðurinn hafi tengst samtökum sem gætu tengst afbrotum. Í ljósi allra þessa atvika og fleiri sem greint er frá í dóminum er talið að framburður þeirra sé í meginatriðum ótrúverðugur um tilgang ferðarinnar og að þeir hafi ekki vitað um falin fíkniefni í leynihólfi bifreiðarinnar.

Samtals var um að ræða 37.755,28 grömm af amfetamíni með 69,8% meðalstyrkleika og 4.965,28 grömm af kókaíni með 81,5% meðalstyrkleika.

Dómurinn metur það til refsiþyngingar að efnin hafi verið mjög sterk og því talsverð hætta talin af verknaðinum. Hins vegar er það einnig metið til refsilækkunar að amfetamínið hafi verið rakt og reiknuð þyngd þess miðað við þurrt efni sé 12,64 kíló samkvæmt matsgerð rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði.

Auk refsingar er þeim gert að greiða sakarkostnað og málsvarnarkostnað. Er sakarkostnaður samtals um 6 milljónir og málsvarnarkostnaður upp á 12,4 milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert