Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu, var í morgun dæmd til að greiða Reyni Traustasyni, fyrrverandi ritstjóra DV og stjórnarmanni Stundarinnar, 300 þúsund krónur í miskabætur vegna ærumeiðandi ummæla sem hún lét um hann falla.
Auk þess var Arnþrúður dæmd til að greiða 1,1 milljón í málskostnað að því er fram kemur á vef Fréttablaðsins.
Arnþrúður var dæmd fyrir tvenn ummæli:
„Hvað heldurðu að hann hafi mörg mannslíf á á á samviskunni þar sem hann hefur lagt heilu fjölskyldurnar og fólk í rúst út af athugasemdakerfum sem hann lét með lygafréttum sem að eru framleiddar?“
„Sjáðu bara eins og [...] stjórnarformann Stundarinnar, Reyni Traustason. Hvað heldurðu að hann hafi mörg mannslíf og fjölskylduhamingju á á samviskunni? Bæði frá því sem ritstjóri DV og ritstjóri Stundarinnar og þá stjórnarformaður Stundarinnar.“
Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Reynis, sagðist afar ánægður með niðurstöðu dómsins og sem væri vel rökstuddur.