Enginn einstaklingur hefur enn sem komið er greinst á Íslandi með kórónuveiruna. Hér á landi hafa nú 18 sýni verið rannsökuð af sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og reyndust þau öll neikvæð. Áfram er unnið samkvæmt óvissustigi, Landsáætlun-heimsfaraldur inflúensu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá embætti landlæknis.
Á heimsvísu hefur kórónuveirusmit verið staðfest hjá um 43.118 einstaklingum og um 1.018 einstaklingar hafa látist (2,3%). Tvö dauðsföll hafa orðið utan Kína, í Hong Kong og á Filippseyjum. Alls hafa 4.284 einstaklingar náð sér eftir veikindin.
Á fundi áhafnar samhæfingarstöðvar í morgun var rætt um stöðuna í Evrópu. Smit utan Kína og innan Evrópu er enn sem komið er fátítt en samtals hafa komið upp 41 tilfelli innan Evrópu og allt fremur vægar sýkingar. Í Evrópu hefur verið gripið til yfirgripsmikilla aðgerða til að rekja för sýktra einstaklinga sem ferðast hafa frá Kína til Evrópu og hefur það gengið vel.
Samkvæmt áhættumati Sóttvarnastofnunar Evrópu er ekki reiknað með að kórónuveiran verði mikið lýðheilsuvandamál fyrir þjóðir sem beita aðgerðum, þ. á m. sóttkví og einangrun, til að koma í veg fyrir smit en getur orðið heilsufarsvandamál fyrir einstaklinga sem sýkjast.
Tilfellin sem greinst hafa eru frá Kína (42.654), Hong Kong (42), Macao (10), Singapúr (45), Taílandi (32), Suður-Kóreu (28), Japan (26), Taívan (18), Malasíu (18), Víetnam (15), Sameinuðu arabísku furstadæmunum (8), Indlandi (3), Filippseyjum (3), Kambodíu (1), Nepal (1), Sri Lanka (1), Ástralíu (15), Bandaríkjunum (13), Kanada (7), Þýskalandi (14), Frakklandi (11), Bretlandi (8), Ítalíu (3), Rússlandi (2), Spáni (2), Belgíu (1), Finnlandi (1) og Svíþjóð (1). Farþegaskip við Japan (135).
Flest tilfellin, eða 42.706 hafa greinst í Kína.
Af þeim 37 einstaklingum sem greinst hafa í Evrópu hafa 12 smitast innan Þýskalands, 6 innan Frakklands og 1 í Bretlandi.
Þetta kemur fram í stöðuskýrslu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Næsti stöðufundur verður á fimmtudaginn og í framhaldinu verður send önnur stöðuskýrsla.