Bæjarráð Akureyrar hefur sent sjávarútvegsráðuneytinu beiðni um breytingu á skilyrðum um byggðakvóta hvað varðar vinnsluskyldu. Erfitt atvinnuástand í Grímsey er að baki umsókninni.
Á síðasta ári fóru rúmlega 1.100 þorskígildistonn af kvóta frá Grímsey til Fjallabyggðar með sölu á öllu hlutafé í útgerðarfélaginu Sigurbirni ehf. til Ramma hf., eða nær helmingur aflaheimilda sem útgerðir í Grímsey réðu yfir. Níu ársverk voru hjá Sigurbirni til lands og sjávar.
Rök fyrir beiðni bæjarráðs Akureyrar eru eftirfarandi: „Grímsey hefur verið skilgreind sem brothætt byggð og er hluti af samnefndu verkefni á vegum Byggðastofnunar en ekki liggur fyrir hvort og hvernig framhaldið á því verkefni verður. Einnig stendur yfir endurskoðun ríkisins á allri nýtingu byggðakvóta og hefur starfshópurinn ekki skilað af sér niðurstöðum.