Fagstjórnendum sparkað niður og til hliðar

Páll segir nýtt skipurit spítalans ekki standast lög.
Páll segir nýtt skipurit spítalans ekki standast lög. mbl.is/Ómar Óskarsson

Nýtt skipurit Landspítalans, sem samþykkt var 1. október síðastliðinn stenst ekki lög og er ófaglegt. Þetta segir Páll Torfi Önundarson, yfirlæknir blóðmeinafræði á Landspítalanum og prófessor í blóðsjúkdómum við læknadeild Háskóla Íslands, í grein sem hann ritar í nýjasta tölublaði Læknablaðsins. Vísar hann meðal annars til tveggja álita umboðsmanns Alþingis máli sínu til stuðnings þar sem meðal annars kemur fram að lögum samkvæmt eigi staða og ábyrgð fagstjórnenda að endurspeglast í skipuriti heilbrigðisstofnunar.

Páll segir að heilbrigðisráðherra hafi, með því að samþykkja skipuritið, fengið forstjóra spítalans „konungsvald án lagastoðar og forstjórinn síðan skipað þrjá jarla og 11 greifa yfir starfsemina“. Hann segir fagstjórnendum hafa verið sparkað niður eða til hliðar. Framkvæmdastjórar lækninga og hjúkrunar hafi verið hliðsettir sem ráðgjafar en hinir endanlega ábyrgu og lögformlegu yfirlæknar komi hvergi fyrir í skipuritinu, sem er þvert á það sem kemur fram í áliti umboðsmanns Alþingis.

Aðalatriðið er að vera „liðsmaður“

Hann segir að á seinni árum hafi fjölgað rekstrarstjórnendum í heilbrigðisþjónustu; sviðsstjórum, framkvæmdastjórum og forstöðumönnum, sem ekki eru ráðnir á grundvelli fagþekkingar sinnar.

„Aðeins er gerð krafa um lægstu háskólagráðu í „einhverri heilbrigðisgrein“ en ekki um yfirlæknishæfi. Þessir rekstrarstjórnendur eru settir yfir yfirlæknana. Huglægir þættir að hætti Capacent ráða för við mannaráðningar. Viðskiptanám virðist vera tekið fram yfir kunnáttu í vísindalegri læknisfræði. Aðalatriðið er að vera „liðsmaður“, að rugga ekki bátnum. Þá er framinn vís. Þó vita allir að aðeins heilaskurðlæknir er fær um að vera í forystu fyrir og bera ábyrgð á skipulagningu og framþróun heilaskurðlækninga. Rekstrarnám er ekki forsenda þess að vera leiðtogi lækningastofnana frekar en hjá arkitekt sem stýrir arkitektastofu eða biskupi sem stýrir kirkju. Fagþekkingin gerir fólk hæft til forystu þekkingarstofnana.“

Læknar höfnuðu stjórnkerfi spítalans

Páll segir að þrátt fyrir rökstuddar umkvartanir um ólöglegar valdatilfærslur frá yfirlæknum til „faglega vanhæfra aðila“ frá aldamótum, úrskurði umboðsmanns þar sem kemur fram að hann telji ekki hafa verið sýnt fram á að staðfesting ráðherra á skipuriti hafi farið fram og verið í samræmi við lög, og lagasetningu Alþingis árið 2007, hafi rekstrarstjórnendur spítalans haldið áfram á sömu braut.

Páll bendir á að á fjölsóttum læknaráðsfundi á Landspítala 15. nóvember síðastliðinn hafi læknar á spítalanum hafnað stjórnkerfi spítalans. Á sama tíma hafi þeir hafi þeir hvatt ráðherra til að sjá til þess að skipurit spítalans væri faglegt og tæki mið af umsögnum umboðsmanns.

„Fundurinn ályktaði að tryggja þyrfti að yfirlæknar beri sem fyrr faglega ábyrgð á þeirri læknisþjónustu sem undir þá heyrir gagnvart framkvæmdastjóra lækninga. Sömuleiðis að læknaráð starfi með sama hætti og verið hefur um áratuga skeið. Jafnframt hvatti fundurinn til þess að íhugað verði að skipa stjórn yfir Landspítala sem hafi það hlutverk að ráða og hafa eftirlit með forstjóra, tryggja fjármögnun og sjá til þess að spítalinn sinni þríþættu hlutverki sínu sem lækningastofnun, kennslu- og vísindastofnun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka