Tugmilljóna viðgerðir í Straumsvík

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. mbl.is/Árni Sæberg

Viðgerðarkostnaður vegna skemmda sem urðu á norðurhlið súrálsbakka álversins í Straumsvík í óveðrinu í desember í fyrra hleypur á tugum milljóna króna.

Þetta kemur fram í minnisblaði verkfræðings hjá verkfræðistofunni Strendingi sem var lagt fram á fundi hafnarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar í morgun.

Áður hefur komið fram að gróft kostnaðarmat vegna viðgerða á grjótgarði og landfyllingum við Austurbakka í Straumsvík vegna óveðursins nemi 7,5 milljónum króna.

Kafarar könnuðu skemmdir

Kafarar voru fengnir til að kafa meðfram steyptum kerjum við enda bakkans til að kanna mögulegar skemmdir á mannvirkinu eftir óveðrið. Í ljós kom að ástandið er að mestu gott nema á norðurhlið bakkans þar sem komið er stórt gat á skilum á milli kerja á um fimm metra dýpi. Stærð opsins er um 1,5 m x 2,5 m.

Talsverðu efni skolað út

„Kafari upplýsti að sjá mætti nýleg sem eldri steypubrot í sárinu og því má leiða að því líkum að gatið hafi komið fram fyrir talsverðum tíma en hið mikla langvinna ölduálag þann 9. og 10. desember hafi aukið verulega á skemmdirnar,“ segir í minnisblaðinu.

„Jafnframt sést að efni hefur skolað út og fyrir innan skemmdina er hellir. Ekki sést auðveldlega stærð hellisins en leiða má að því líkum með tilliti til þeirra skemmda sem fram eru komnar í um 20-25m fjarlægt frá opinu að talsverðu efni hafi skolað út.“

Heildarumfang ekki að fullu ljóst

Verkfræðingurinn leggur til ákveðna framkvæmdaröðum á viðgerðum og segir erfitt að meta kostnað við viðgerðir á þessu stigi þar sem heildarumfang sé ekki að fullu ljóst. Þó megi verið ljóst að kostnaðurinn hlaupi á tugum milljóna króna.

Byggður á árunum 1966 til 1969

Súrálsbakki er eldri hafnarbakkinn í Straumsvík sem var byggður á árunum 1966-1969.  Hann er 230 metra langur með upphaflega 10 metra dýpi en síðar var dýpkað í 12 metra.  Bakkinn er nú einkum notaður fyrir losun á súráli til álversins í Straumsvík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert