Vill leiðrétta „fráleita“ framsetningu

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segist taka eftir því að ótrúlegasta fólk leggi út af þeim spuna að afstaða borgarinnar í kjaradeilunni við Eflingu sé sú að „ekki sé hægt að hækka lægstu launin til þeirra sem sitja á botninum“.

Hann segir framsetninguna fráleita og að mikilvægt sé að leiðrétta hana. Þvert á móti hafi borgin boðið hæstu hækkunina á lægstu laun, eða 90 þúsund krónur, sem með öðru myndi leiða til þess að lægstu laun færu yfir 400 þúsund krónur á mánuði á samningstímanum.

Á facebooksíðu sinni bendir hann á að hækkun lægstu launa sé í takt við lífskjarasamningana og í samræmi við samninga sem sveitarfélög gerðu við Starfsgreinasambandið.

„Því verður með engum rökum haldið fram að lífskjarasamningarnir gangi út á að lægst launuðu hóparnir sitji eftir,“ segir hann og bætir við: „Þeir sem ætla að velja Reykjavíkurborg hin verstu orð og einkunnir fyrir það að vilja semja á grunni lífskjarasamninganna eru óbeint að beina spjótum sínum að Vilhjálmi Birgissyni verkalýðsforingja á Akranesi, Aðalsteini Baldurssyni á Húsavík og Kolbeini Gunnarssyni hjá Hlíf í Hafnarfirði og fimmtán öðrum verkalýðsleiðtogum sem alir fengu samþykkta samninga á sama grunni í upphafi vikunnar.“

Fulltrúar Eflingar og Reykjavíkurborgar á fundi hjá ríkissáttasemjara í síðasta …
Fulltrúar Eflingar og Reykjavíkurborgar á fundi hjá ríkissáttasemjara í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nær enginn munur á ófaglærðum og faglærðum

Dagur segir viðbótarkröfur Eflingar umfram lífskjarasamninga vera mjög miklar. Þær þýði að oft yrði nær enginn launamunur á ófaglærðu starfsfólki og starfsfólki með 3 til 5 ára háskólamenntun.

„Það er augljóst að félagsmenn eða forysta í öðrum stéttarfélögum myndu ekki una því heldur sækja kjarabætur langt umfram lífskjarasamningana líka. Þar með væru forsendur þeirra fyrir úr sögunni og líklegast að verkfall Eflingar yrði ekki það síðasta á þessu vori. Þetta er sú grafalvarlega staða sem er að teiknast upp og ég hef lýst áhyggjum af ,“ segir hann og bendir á tilkynningu á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem fjallað er um nýjan samning þess við Starfsgreinasambandið.

Þar kemur fram að Samband íslenskra sveitarfélaga leggur lífskjarasamninginn, sem var gerður á almennum markaði í fyrra, algjörlega til grundvallar í kjaraviðræðum við stéttarfélög. Þar segir einnig að samningurinn hafi þegar skapað skilyrði til lægri vaxta og minni verðbólgu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert