Bæjarráð Fjallabyggðar tekur undir bókun bæjarráðs Seyðisfjarðarkaupstaðar um mikilvægi þess að fjármagn verði tryggt til að verja byggðir fyrir snjóflóðum.
Í bókun bæjarráðs Seyðisfjarðarkaupstaðar er það harmað að hamfarirnar sem dundu yfir Vestfirði þegar snjóflóðin féllu á Flateyri og Suðureyri í síðasta mánuði hafi þurft til að opna á umræðu um ofanflóðasjóð.
„Seyðisfjörður er einn þeirra staða sem kallað hefur eftir vörnum bæði fyrir snjó- og aurflóðum. Sérfræðingar hafa rannsakað og skilað skýrslum, forhönnun varnargarða liggur fyrir en fjármagnið vantar,“ segir í bókuninni.
Þar segir einnig að það sé þakkarvert að vilji sé hjá ríkisstjórninni, miðað við það sem hefur komið fram í fjölmiðlum, að bæta úr þessum málum.
„Bæjarráð Seyðisfjarðar minnir á að árið 1885 féll eitt mannskæðasta snjóflóð Íslandssögunnar úr Bjólfinum, sópaði flóðið 15 húsum út í sjó, 90 manns lentu í flóðinu og 24 létust. Árið 1995 sópaðist fiskimjölsverksmiðja úr í sjó, einnig staðsett í Bjólfinum. Mikil mildi að ekki varð manntjón þar. Við viljum því minna á að hamfarir sem þessar geta átt sér stað hvenær sem er. Bæjarráð Seyðisfjarðar krefst þess að ofanflóðasjóður verið fjármagnaður að fullu og gert kleift að uppfylla skyldur sínar,“ segir í bókuninni.
Kristín Martha Hákonardóttir, verkfræðingur hjá Verkís og sérfræðingur í ofanflóðavörnum, sagði í samtali við mbl.is að hún teldi brýnast að hefjast handa við gerð ofanflóðavarna á Seyðisfirði, hluta Neskaupstaðar og á Patreksfirði.
Bæjarráð Fjallabyggðar minnir í sinni bókun á að fjórða og síðasta áfanga stoðvirkja fyrir ofan byggð er enn ólokið þrátt fyrir ítrekaðar kröfur bæjarráðs um að verkið yrði klárað í beinu framhaldi af þriðja áfanga.
Bæjarráð hefur falið bæjarstjóra að senda erindi á fjármála- og umhverfisráðherra vegna málsins.